Skírnir - 01.04.1990, Page 77
SKÍRNIR
LANDMÆLINGAR
71
Gæsafjalla. Hjá Páli Melsteð, síðar amtmanni, fékk Björn uppdrátt af
svæðinu norðan Vatnajökuls. Hann mun hafa verið gerður eftir rökum
frá Pétri Péturssyni frá Hákonarstöðum, sem fáum árum fyrr fór vestur
með Vatnajökli norðanverðum að Skjálfandafljóti á vegum
Fjallvegafélagsins. En Birni þótti uppdrátturinn svara lítt til staðreynda,
og hefði hann frernur viilt fyrir sér og tafið. Hins vegar virðist hann
ekki hafa þekkt hina merku lýsingu Bjarna hreppstjóra Jónssonar á
Draflastöðum, sem kannaði Ódáðahraun fyrstur manna árið 1791.
Veturna en þó einkum vorin notaði Björn til þess að vinna úr
mælingum sínum og til þess að teikna kortin. Að teikningum vann
hann helst á vorin og segir að þá sé birtan best. Bendir það til þess, að
ljósmeti hafi verið sparað í Skrínunni, en svo nefndu Bessastaðapiltar
Sviðholt, þar sem Björn bjó.
Þorvaldur Thoroddsen freistaði þess að reikna út ferðakostnað
Björns við mælingarnar. Honum telst svo til, að Bókmenntafélagið hafi
greitt honum samtals 1945 rd. eða 163 rd. á ári að meðaltali, auk 20
ríkisdala. þóknun ár hvert fyrir kortateiknun. Árin 1836-1846 var Birni
greiddur árlegur styrkur af rentukammerinu og nam hann 100 rd.
árlega eða 1100 rd.1 Þetta eru að sjálfsögðu hlægilega lágar upphæðir,
miðað við verkið sem átti að leysa af hendi. Björn kvartar líka oft um
skort á skotsilfri til þess að hann geti innt verk sitt svo vel af hendi sem
hann vildi, og stundum varð hann að grípa til eigin pyngju að minnsta
kosti um stundarsakir.
Þegar teikningu kortanna var lokið, sendi Bókmenntafélagið þau til
Kaupmannahafnar í hendur Olsens, sem hafði alla umsjón með
útgáfunni, en Scheel annaðist útreikninga. Hann umreiknaði allt
þríhyrningakerfi strandmælinganna í samræmi við ofanvarp það sem
valið var og álitlegast þótti við útgáfu kortsins og felldi það að
útreikningum og mælingum Björns, eftir því sem þeim þokaði áleiðis.
Var það mikið verk og létti mjög undir, þegar að því kom að ganga frá
kortum Björns til samandráttar, hreinteiknunar og eirstungu.
Á útgáfunni urðu ýmsar tafir. Á síðari ferðum sínum um landið,
1 Þorvaldur Thoroddsen, Landfræðisaga Islands, III. bindi, Kaupmannahöfn,
Hið íslenzka bókmenntafjelag 1904, bls. 302-324, sérstaklega 323n. Til
samanburðar getur Þorvaldur þess að árslaun kennara voru þá 500 rd.
(Ritstj.)