Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 80
74
HARALDUR SIGURÐSSON
SKÍRNIR
kom Björn stundum á þær slóðir, sem hann var búinn að kortleggja
eftir „bestu heimildum" kunnugra manna, er stundum reyndust
fallvaltar eins og gerist og gengur. Má nefna Kjalarsvæðið sem dæmi.
Þegar Björn mældi Arnessýslu snemma á ferli sínum, var Kjölur gerður
eftir slíkum heimildum og af verulegum vanefnum. Síðar átti Björn leið
um Kjöl og notaði tækifærið til þess að leiðrétta kortið frá eldri
gerðinni. Slík dæmi mætti nefna víðar. Björn var því alltaf að senda
Olsen ný ískeyti og tafði það auðvitað útgáfuna. Stundum komu þessir
viðaukar svo seint að þeir urðu ekki teknir með.
Eins og fyrr segir var í öndverðu gert ráð fyrir að hver sýsla fengi sitt
sérstaka kort, en vegna kostnaðar þótti það ekki fært. Var þá horfið að
því ráði, að minnka kortin til muna og gefa þau út sem fjórðungsblöð.
Birni þótti þetta að vonum lakara, en sætti sig við þá ákvörðun. Hafið
var að stinga kortin í eir árið 1844, og það ártal ber það í titli. En ýmsar
ástæður, eins og íaukar og leiðréttingar, urðu þess valdandi að beðið var
með prentun uns öllum hlutum þess var lokið. Prentár alls kortsins er
því 1848.
Með mælingum og kortagerð Björns Gunnlaugssonar var unnið eitt
mesta vísindaafrek aldarinnar hér á landi. Heildaruppdrættir landsins
voru raunar til frá eldri tímum, og studdust sumir þeirra að nokkru
leyti við mælingar. En þeir voru fjarskalega handahófskenndir og
ónákvæmir, en eyðurnar fylltar ágiskunum eða jafnvel látnar standa.
Hér var í fyrsta sinni fenginn þolanlegur uppdráttur af landinu öllu frá
ystu nesjum til innstu afkima.
Björn mældi engar grunnlínur. I þess stað notaði hann þríhyrninga-
línur strandmælinganna og mældi út frá þeim. Sjálfur segist hann hafa
miðað frá vörðum þeirra og öðrum kennileitum til fjalla og annarra
auðkennilegra staða, sem hann náði til og ákvað þríhyrninga þangað.
Frá þessum mælingapunktum mældi hann svo til nýrra auðkenna og
þannig koll af kolli uns allt náði saman. Staðarákvörðunum var beint að
flestum kirkjustöðum landsins, en gengið fram hjá þorra annarra bæja
og farið um það að frásögn kunnugra manna. Ef sá kostur hefði verið
valinn, að ákveða afstöðu hvers bæjar með mælingu, hefði það tekið svo
langan tíma að vonlaust var að Björn lyki verkinu.
Björn var kominn á fimmtugsaldur, þegar hann hóf mælingarnar, og
hann óttaðist sífellt að honum entist ekki aldur til að ljúka þeim, ef