Skírnir - 01.04.1990, Side 82
GUNNAR HARÐARSON
Njóla og íslensk heimspeki
í GREIN um Björn Gunnlaugsson í Andvara 1883 er sagt að Njóla sé
„hið fyrsta og allt til þessa hið bezta heimspekirit á íslenzka tungu".1
Þarna er kannski fulldjúpt í árinni tekið. Sá skilningur á bókmennta-
sögu Islendinga hefur hins vegar verið mjög útbreiddur að heimspeki
sé henni algjörlega óviðkomandi. „Heimspeki er ekki til í íslenzkum
bókmenntum" segir Finnur Jónsson í bókmenntasögu sinni frá 1891.2
Þessi útbreiddi skilningur er, eins og oft vill verða, misskilningur, því
að fjölmörg dæmi eru um að íslendingar hafi lagt stund á heimspekileg
fræði frá öndverðu og fram til þessa dags.3 En heimspekin er oftast nær
stunduð í skólum og þjóðsagan vill hafa það svo að íslensk menning
(„þjóðarandi" eins og menn sögðu hér í eina tíð) eigi heima hjá alþýð-
unni. Megineinkenni þessarar menningar á svo að vera frásagnarhefðin,
en af henni finnst að sjálfsögðu hvorki tangur né tetur hjá þeim sem
færðu sögurnar í letur, menntamönnunum. Það er ekki laust við að vera
örlítið spaugilegt hversu mikla skömm þeir menntamenn sem rita
íslenska bókmenntasögu hafa á menntamönnum fyrri tíðar. Þeir hafa
ekki heldur látið sitt eftir liggja við að reyta heimspekilega þáttinn upp
úr bókmenntahefðinni, fyrst með því að höggva á böndin milli skól-
anna og bókmenntanna og síðan, ef eitthvað stendur eftir, með því að
kveða upp þann úrskurð að fræðileg og heimspekileg rit séu slæmar
bókmenntir og ekki þess virði að vera lesin.
Af þessum sökum hefur hluti íslenskrar bókmenntahefðar fallið í
skuggann, þar á meðal heimspekilegur kveðskapur Islendinga. Hann á
að vera lélegar bókmenntir. En það er reyndar líka misskilningur, því
1 P&B: „Björn Gunnlaugsson", Andvari, tímarit hins íslenzka þjóðvina-
félags, níunda ár, Kaupmannahöfn 1883, bls. 7.
2 Finnur Jónsson: Ágrip af bókmenntasögu íslands, Reykjavík 1891. Tilv. í
Páll Skúlason: Pælingar, Reykjavík 1987, bls. 28 n. 2.
3 Sjá t.d. grein mína: „Verkefni íslenskrar heimspekisögu", Skírnir 1985.