Skírnir - 01.04.1990, Page 90
84
GUNNAR HARÐARSON
SKÍRNIR
„Þegar vér hugleiðum að sólin er svo lángt á burtu frá oss, að fallbyssukúla,
þótt hún alltaf flýgi með jöfnum flýti mundi þurfa 25 ára tíma til að ná til
sólarinnar, þá mætti furða sig yfir ljóssins eður sólargeislanna mátalausu ferð“
(101-102).
Vel má vera að hér sé um einbera tilviljun að ræða, en á hitt ber að líta
að bæklingur Súhms er þess efnis að líklegt hlýtur að mega telja að
Björn hafi lesið hann, jafnvel á unga aldri.
Hér verður nú að stikla á stóru, en þess skal þó getið að líklegt má
telja að hugmyndin um veldi lífsins, „tröppugáng" þess, eins og Björn
kallar það, eða stigveldi, sé sótt til náttúruspeki Schellings, beint eða
óbeint, og ljóst er að Björn hefur verið kunnugur trúarheimspeki
Schleiermachers. Eini nýjaldarheimspekingurinn sem hann virðist
þekkja til er Leibniz enda segir Björn sjálfur að 163. erindi Njólu sé
tekið beint upp úr ritinu Théodicée eftir Leibniz. Ennfremur er í
skýringum Björns við kvæðið getið ýmissa guðfræði- og siðfræðirita
sem notuð voru í guðfræðikennslunni á Bessastöðum.
Eins og fyrr var sagt átti Njóla töluverðum vinsældum að fagna meðal
almennings á sinni tíð. Þessari almenningshylli hefur hún vafalaust náð
vegna þess að hún hefur uppfyllt einhverja þörf hjá fólki sem mætti
líklega að réttu lagi kalla hugsunarþörf. En hún markaði einnig spor í
bókmenntirnar.
Arið 1844 skrifaði Sigurður Melsteð fyrrnefndan ritdóm um Njólu
í Ný félagsrit, og gerði þar að umtalsefni einkum „ódauðleikafræðina
og syndafræðina“ eins og hann sjálfur segir. Björn Gunnlaugsson hefur
ætlað sér að svara þessum ritdómi í næsta hefti tímaritsins eins og sjá má
af grein hans „Athugasemdir höfundar „Njólu" við álit það um hana er
stendur í „Nýu Félagsrita" 4da ári“ sem birtist aldrei en er varðveitt í
handriti í Landsbókasafni.10 Þar setur hann fram þá kaflaskiptingu sem
er að finna í 2. útgáfu kvæðisins. Ritdómurinn gerði það sem sé að
verkum að Björn Gunnlaugsson endurskoðaði lítillega kvæði sitt og
skýringar sínar við það.
10Handrit í Landsbókasafni, Lbs. 231, 8vo, nr. 3.