Skírnir - 01.04.1990, Qupperneq 92
86
GUNNAR HARÐARSON
SKÍRNIR
2. Mér ein kerlinga blakkleit bók
barst í hönd fyrir skemmstum tíma
hafða’g af leti í höfnum svíma
lauk þó strax upp og lesa tók
man þaðan eitt þó merki klént
— minnis kraftarnir eru skertir —
heilræði Sathan hafi kennt
hrærð’ ei við því þig ekki snertir.
Birni var auðsjáanlega annt um Njólu sína, úr því að hann bjóst til að
svara Sigurði Melsteð og hann svaraði líka Níelsi í ritlingi sem kallast
„Forlög og bæn“ eða „Guðs ákvarðaða ráð og bæn hins trúaða“ og
vitnar þar í Næturfælu Níelsar skálda.14
Njóla vakti sem sé viðbrögð þegar í stað. Benedikt Gröndal drepur
á þetta í Dægradvöl og skefur ekki af fremur en endranær: „Njóla fékk
hér almenningslof, af því að alþýðan hafði ekkert vit að dæma hana, en
varð hrifin af þessum hálfmystisku alheimsdraumum“ og bætir við litlu
síðar: „og þó Njóla væri tvisvar gefin út, þá er hún lítils virði, ómerkileg
að innihaldi og smekklaus að formi, enda las Björn engar heimspeki-
legar bækur [...]. Björn var ekkert annað en mathematicus, en þar var
hann líka genius, öll hans heimspeki var tóm mathematik.“15
Benedikt Gröndal var þó einn þeirra sem héldu áfram þeirri hefð að
yrkja heimspekileg kvæði með skýringum. Kvæði sitt kallaði hann
Hugfró og birti í eigin tímariti, Gefn, árið 1870.16
En Njóla markaði dýpri spor hjá öðrum mönnum. I Sögu hugsunar
minnar um sjálfan mig og tilveruna segir Brynjúlfur Jónsson frá
Minna-Núpi frá því hvaða áhrif lestur Njólu hafði á hann:
Einn þeirra manna, sem jeg kynntist í „vcrinu" átti Njólu Bjarnar Gunn-
laugssonar. Hún var mjer ókunn áður, nema hvað jeg hafði heyrt um hana talað
og misjafnt um hana dæmt. Nú kynnti jeg mjer hana svo vel, að kalla mátti
að jeg lærði hana „spjaldanna á milli“. Jeg gerði mjer hana ljósa, bæði í
einstökum atriðum og alla í einni heild. Og þess ljósari sem hún varð mjer, þess
meira fannst mjer um hana vert. Hún var fyrsta bókin, af þeim er jeg hafði lesið,
er kom samhljóðun á allt það „Guðsorð" sem mjer hafði verið kennt.18
14Handrit í Landsbókasafni, ÍB 931, 8vo.
15Benedikt Gröndal: Dægradvöl, Reykjavík 1965, bls. 77.
xkGefn, 1. árgangur, 1870, bls. 44-81
17Brynjúlfur Jónsson: Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna,
Reykjavík 1912, bls. 21.