Skírnir - 01.04.1990, Page 93
SKÍRNIR
NJÓLA OG ÍSLENSK HEIMSPEKI
87
Brynjúlfur færði einnig hugsanir sínar í búning skáldskapar og orti
nokkur heimspekileg kvæði sem komu út í Reykjavík árið 1875 undir
heitinu Skuggsjá og ráðgáta eða hugmynd um Guð og verk hans, dregin
af tilsvörun hins einstaka og hins gjörvalla og fylgdu þeim ýtarlegar
skýringar.
En þar með er ekki öll sagan sögð. I Inngangi að útgáfu sinni á
kvæðum Einars Benediktssonar ræðir Kristján Karlsson nokkuð um
sérstöðu Einars í íslenskum skáldskap og kemst meðal annars svo að
orði að „meginþættir ljóða hans liggja utan íslenzkrar alfaraleiðar í
skáldskap". En síðan segir hann: „Einn fyrirrennara á hann sér samt,
sem aldrei verður sniðgenginn, þegar vér íhugum hugmyndaheim og
myndmál Einars. Sá maður er Björn Gunnlaugsson.“18 Að dómi
Kristjáns Karlssonar er kveðskapur Einars Benediktssonar beint fram-
hald af því verki sem Björn Gunnlaugsson tók sér fyrir hendur í Njólu,
sem sé „að samræma guðstrú og vísindi í heimsmynd, sem fullnægði
hvorutveggja". Hjá Birni leiðir „alheimsáformið" til siðferðilegrar
niðurstöðu, en hjá Einari til sálfræðilegrar. Báðir ganga að vísum
ákveðnum uppgötvunum í eðlisfræði og almennri þekkingu í
stjörnufræði, og báðir beita þeir aðleiðslurökum, „þeirri aðferð sem
reyndist hvað áhrifamest í hugsun nítjándu aldar,“ til þess að gera grein
fyrir skipan alheimsins út frá hinu þekkta og sannaða.19 Kristján sýnir
ennfremur fram á að orðfæri Einars mótist af eðlisfræði Bjarnar og
Njólu.20
Ég vildi að lokum mega bæta við þessari athugasemd. Sé það víst að
Einar Benediktsson hafi fengið myndmál sitt að hluta til frá Birni, þá
er það jafnvíst að Björn hafi þegið nokkurn hluta orðaforða síns frá
Jóni á Bægisá. Við getum því að minnsta kosti þó ekki væri annað en
skemmt okkur við þá tilhugsun að hefði Jón Þorláksson ekki þýtt
Tilraun um manninn, er hreint ekki öruggt að Björn Gunnlaugsson
hefði sett saman Njólu í þeirri mynd sem hún er, og þá er líka alls óvíst
hvers eðlis kvæði Einars Benediktssonar hefðu orðið.
,8Tilv. rit. bls. 18.
19Tilv. rit. bls. 20
20Tilv. rit. bls. 18.