Skírnir - 01.04.1990, Page 102
96
KARL SIGURBJÖRNSSON
SKÍRNIR
29
Ábóti nokkur sagði: „Gætið þess að þið berið aldrei orð annarra inn í
þennan klefa.“
30
Bind huga þinn við eina hugsun aðeins, eða öllu heldur einungis við
hugsun um hinn eina.
31
Um Abba Ammonas, lærisvein Antoníusar, var sagt að eitt sinn er hann
var orðinn biskup var komið til hans með unga, ógifta stúlku, sem var
ófrísk, og menn sögðu: „Sjáðu hvað þessi vesalings aumingi hefur gert!
Láttu hana vinna yfirbót.“ En biskupinn signdi kvið hennar og bauð að
henni væru gefnir fimm líndúkar, „þá á hún og barnið að minnsta kosti
eitthvað til greftrunarinnar." En ákærendurnir reiddust og sögðu:
„Hvað á nú þetta að þýða? Hvers vegna ávítarðu hana ekki?“ En hann
sagði við þá: „Sjáið þið ekki að hún er nær dauða en lífi?“ Síðan lét hann
hana fara. Eftir þetta þorði enginn að ákæra.
32
Dag nokkurn komu þrír menn til Abba Akkillesar. Einn þeirra hafði
illt orð á sér. Hinn fyrsti bað: „Faðir, gef mér fiskinet.“ „Nei, það get
ég ekki,“ svaraði Akkilles. Næsti sagði: „Þú ert svo góður, viltu ekki
gefa mér fiskinet, þá á ég eitthvað til minningar um þig.“ En hann
svaraði: „Ég hef ekki tíma til þess.“ Þá kom sá sem hafði illt orð á sér
og sagði: „Búðu til fiskinet handa mér, þá á ég eitthvað sem þú hefur
gert.“ Abba Akkilles svaraði að bragði: „Já, það skal ég gera.“ Hinir
tveir spurðu hann nú einslega: „Hvers vegna hafnaðir þú bón okkar, en
lofaðir honum?“ Gamli maðurinn svaraði þeim: „Ég sagði ykkur að ég
gæti þetta ekki, og þið urðuð ekki fyrir vonbrigðum, af því að þið
vissuð að ég hef engan tíma til þess. En ef ég hefði ekki gert þetta fyrir
hann þá hefði hann hugsað: „Gamli maðurinn hefur heyrt um brot mitt
og þessvegna vill hann ekki gera þetta fyrir mig,“ og bróðurleg tengsl
okkar í milli hefðu rofnað. En nú hef ég glatt sálu hans.“