Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 112
106
STEFÁN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
jafnvel beitt í refsingarskyni, enda var almennt ekki litið svo á að vinna
væri göfug eða gefandi. Sumum störfum þurfti að sinna af nauðsyn
einni, en það sjónarmið að menn skyldu vinna mikið til þess að afla sem
mestra efnalegra gæða var víkjandi í heimsmynd miðalda.11
Við slíkar aðstæður er til lítils fyrir menn að framleiða meira en þeir
þurfa til eigin framfærslu. Enga andlega umbun var að fá fyrir við-
bótarvinnu, og umframframleiðslunni var ekki hægt að koma í verð eða
not hjá öðrum nema að mjög takmörkuðu leyti, og þá helst í ölmusu-
gjafir til fátækra. Það er fyrst er markaðir opnast og greiðast tekur fyrir
viðskiptum að nokkra þýðingu hefur að framleiða umfram það sem
hver og einn þarf til að viðhalda sínum hefðbundna lífsmáta. Þannig má
sjá hvernig trúarleg viðhorf og ríkjandi heimsmynd manna á þessum
tíma héldu aftur af vinnuseminni, veraldlegum viðskiptum og hagvexti.
II. Nútímalegt vinnuviðhorf kemur til sögunnar:
Kenning Webers um siðaskiptin og uppsprettu auðhyggjunnar
„Dugnaður í vinnu, það er köllun yðar.“ (Richard Baxter)
„Gáðu þess að tíð er peningar." (Benjamín Franklín)
Mexíkanski rithöfundurinn Octavio Paz hefur lýst andstæðum hinna
gömlu og nýju vinnuviðhorfa á skýran hátt, er hann ber saman dæmi-
gerða lífsskoðun Norður-Ameríkumanna og Suður-Ameríkumanna.
Eftirfarandi ívitnun dregur fram þessa meginþætti er tengjast vinnu-
viðhorfunum:
í þjóðfélögum Nýja Spánar (þ.e. Mexíkó og Suður-Ameríku) var ekki litið
á vinnuna sem frelsandi athöfn og hún hafði ekkert gildi í sjálfri sér. Litið var
á erfiðisvinnu sem þrældóm. Flinir æðri menn hvorki unnu né stunduðu
viðskipti. Þeir stóðu í stríði, stjórnuðu, settu lög. Þeir hugsuðu, veltu vöngum
yfir tilverunni, stigu í vænginn við konur, elskuðu og nutu lífsins. Nytsemd
vinnunnar lá eingöngu í því að skapa auð, og auðurinn var góður því hans
mátti njóta [...] Hlutverk vinnunnar var þannig aðeins það, að undirbúa
veisluna. Árið líður milli tveggja tímabila, vinnu og hátíðar, sparnaðar og
eyðslu. [. . .] Bandaríkjamenn hafa hins vegar aldrei þekkt lífsviðhorf
hátíðarinnar. [. ..] Það er eðlilegt. Þjóðfélag sem lagði svo mikla áherslu á hið
11P. D. Anthony, framangreint rit, bls. 37