Skírnir - 01.04.1990, Qupperneq 113
SKÍRNIR
VINNAN OG MENNINGIN
107
frelsandi hlutverk vinnunnar hlaut að fordæma lífsviðhorf lystisemdar og
eyðslusemi sem óæðra hátterni. [.. .] Kapítalismi upphefur athafnir og
hegðun sem lengst af hefur tengst karlmennsku: áreitni, samkeppnisanda,
metnað, baráttu.12
I umfjöllun sinni tengir Paz þessar ólíku hugmyndir við trúarbrögðin,
og það gerir einnig þýski þjóðfélagsfræðingurinn Max Weber, sem setti
fram eina áhrifamestu kenninguna um nútímalegt vinnuviðhorf.13
Weber vildi skýra hvers vegna markaðsþjóðfélagið, kapítalisminn,
kom fyrst til sögunnar á Vesturlöndum en ekki í öðrum heimshluta, og
hvers vegna slíkt þjóðskipulag hafði ekki fyrr komið fram á sjónar-
sviðið. Marx hafði skýrt tilkomu kapítalismans með kenningu sinni um
sögulega efnishyggju og stéttabaráttu milli andstæðra hagsmunaafla.
Weber leitaði aftur á móti skýringa í þróun ríkjandi viðhorfa innan
þjóðfélagsins. Sé litið til lengri tímabila í sögu vestrænna þjóðfélaga,
sagði hann, má greina almenna tilhneigingu í þróun viðhorfa: heims-
mynd byggð á trúarlegri hefðarhyggju, sem rakin er til yfirnáttúrulegra
afla, víkur fyrir veraldlegri viðhorfum, efnishyggju og raunhyggju, sem
síðan geta af sér nytja- og auðhyggju. Þjóðskipulag kapítalismans sam-
svarar þessum nýju viðhorfum. Kapítalisminn er grundvallaður á nýrri
lífsskoðun sem ekki var ríkjandi í þjóðfélögum fyrri alda. Spurningin
sem Weber setur fram er þá þessi: hvaðan koma hin nýju viðhorf og
hvernig hafa þau áhrif á atferli manna og skipan þá er þeir búa sér? En
áður en greint er frá svörum hans við þessari spurningu er rétt að útlista
lítillega hver var skilningur Webers á markaðsþjóðfélaginu.14 Hvað er
kapítalismi og hvernig er hann frábrugðinn fyrra þjóðskipulagi?
Samkvæmt skilningi Webers er kapítalismi þjóðskipulag sem byggt
12ívitnun í B. Jones, Sleepers Wake! Technology and the Future of Work
(Brighton: Wheatsheaf Books, 1982), bls. 193.
13M. Weber, The Protestant Ethicand the Spirit of Capitalism, þýðandi C.T.
Parsons (London: Unwin, 1930); sjá einnig R. Aron, Main Currents of
Sociological Thought (Harmondsworth: Penguin, 1967), bindi 2; G.
Marshall, In Search of the Spirit of Capitalism (London: Hutchinson, 1982),
og Sigurður Líndal, inngangur að Max Weber, Mennt og máttur
(Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1973).
14 Hugtökin kapítalismi og markaðsþjóðfélag eru hér notuð jöfnum höndum
um sama fyrirbærið. Kapítalismi hefur verið þýddur á íslensku sem
„auðvaldsskipulag", einkum af marxistum. Aðrir hafa þýtt kapítalisma sem
„fjármagnsskipulag". Kapítalískt þjóðskipulag getur tengst margs konar