Skírnir - 01.04.1990, Síða 116
110
STEFÁN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
trúarmanninum til að hafa áhrif á náðarútvalninguna að ástunda
safnaðarstarf, klausturlifnað né helgileiki (ritúal). Eina hjálparmeðalið
sem Kalvín færði hinum trúaða var að hann gæti leitað eftir merkjum
eða vísbendingum um hvort hann hefði hlotið náð eður ei. Leiðin til að
finna slík merki var sú, að ástunda vinnu og reglusemi af fremsta megni.
Arangur í veraldlegu starfi mátti því túlka sem merki um að við-
komandi hefði verið valinn til að hljóta eilífa náð, en þó gæti maðurinn
aldrei verið alveg viss um þetta. Þannig var í reynd loku fyrir það
skotið, að einstaklingurinn fengi nokkurn tímann nóg að gert í verald-
legu starfi sínu til að ná árangri, né öðlast fullvissu um náðarútvalningu
sína. Með þessari kennisetningu hafði Kalvín því tekist að innræta
hinum trúuðu járnaga og metnað til vinnunnar. Vinnan var orðin að
köllun guði til dýrðar, einskonar veraldlegum helgileik.
Þegar við þetta er bætt kröfunni um meinlætalifnað, sem fói í sér að
afurðum vinnunnar skyldi ekki sólundað né varið til neyslu heldur
skyldi ávaxta þær með hagsýni, var fullmótuð siðfræði sem féll að
skipan markaðsþjóðfélagsins.16 Oguð vinna, sparsemi og dygðugt
líferni, og söfnun verðmæta er síðan skyldi ávaxta til að ná frekari
árangri, fullkomnuðu þær atferlisreglur sem markaðsskipanin er byggð
á. Leiðin til að ná árangri í kristilegri heimsmynd Kalvíns fól því í sér
sömu lífsreglurnar og fylgja þurfti til að ná árangri í veraldarvafstri
markaðsþjóðfélagsins. Þar með var einnig eytt neikvæðum viðhorfum
kristninnar til viðskiptalífs og auðhyggju. Taumlaus vinna, sjálfs-
bjargarviðleitni, hagsýni og köld reikningslist í viðskiptum höfðu
fengið trúarlega réttlætingu. Þetta er samsvörunin sem Weber fann milli
trúarbragðanna og kapítalismans.
Enski sagnfræðingurinn og þjóðfélagsfræðingurinn R. H. Tawney
bætti því við kenningu Webers, að vinnusiðfræði mótmælenda hefði
haft áhrif á vitund manna um stéttskiptingu.17 Þetta kæmi til dæmis
fram í því, að ríkidæmi var haft til vitnis um að viðkomandi hefði hlotið
náðarútvalningu og hlyti því að vera guði þóknanlegur. Fátæktin hlaut
hins vegar að vera túlkuð sem merki um ófullnægjandi árangur, ekki
16Púritanar, eins og Englendingurinn Richard Baxter, lögðu ofuráherslu á
meinlætalifnaðinn, jafnvel meiri en Kalvín sem boðaði að menn mættu lifa
vel en þó umfram allt hófsamlega.
17R. H. Tawney, Religion and the Rise of Capitalism (Harmondsworth:
Penguin, 1948), bls. 227'.