Skírnir - 01.04.1990, Side 124
118
STEFÁN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
þeim jafnvel ofviða.28 Uno von Troil segir í sendibréfi frá 1774, að eftir
þessum lögum sé farið og fyrirmæíin talin samsvara afköstum meðal-
manns, þótt misbrestir kunni að vera á að menn afkasti svo miklu.
Karlmannsdagsverk var, til dæmis, talið það „að slá þrjátíu ferfaðma á
velli en fjörutíu á engi eða rista sjö hundruð torfur, átta feta langar og
þriggja feta breiðar. I klofsnjó á karlmaður að ryðja til jarðar fyrir
hundrað sauðum. Vinnukona skal dag hvern raka á eftir þremur
körlum eða vefa fimm álnir vaðmáls.“29
Varla mun ofsögum sagt að þetta hafa verið ærnar vinnuskyldur sem
lagðar voru á fólk. Hvort sem farið hefur verið eftir Búalögum í
hvívetna eða ekki, er ljóst að þau hafa sett viðmið um hvaða kröfur
mátti gera til vinnuhjúa. Með hliðsjón af þessu virðist óhætt að segja,
að iðjuleysið hafi ekki átt sér dugmikla talsmenn á Islandi til forna, ólíkt
því sem var hjá Grikkjum. Oft var til þess tekið að húsbændur hafi
gengið til verka með hjúunum, og hvergi dregið af sér. Ekki fór þó hjá
því að gera þyrfti frekari ráðstafanir til að viðhalda vinnuaga. Anna
Sigurðardóttir nefnir til dæmis Bessastaðapóstana, sem út voru gefnir
1685, en þar er að finna eftirfarandi grein um vinnuhjú:
Sérhver húsbóndi hafi góðan og kristilegan aga og umvöndun á sínu
þjónustufólki með hendi, vendi eður keyri, þó án sára og lemsturs, nær orsök
er til. En ef það líður óbærilegan skaða af þeim aga, þá hjálpi yfirvaldið þeim
að ná mannhelgis rétti. En við óhlýðið, svikult og mótþróafullt þjónustufólk
höndlist eftir 2. pósti [en þar segir m.a. að „tilskikkast mættu hespur og gapa-
stokkur"]. Sá sem ekki vill hlýða kristilegri umvöndun húsbónda síns, heldur
setur sig upp á móti honum með vondum orðum, höggum eður öðrum
strákslegum atvikum, sé rétt tækur í fangelsi undir straff af valdsmanni, nær
upp á er klagað ...30
Auk fyrirmæla frá yfirvöldum í formi laga og tilskipana hefur gætt
vinnuaga í óskráðum siðareglum sem landsmenn hafa almennt virt, og
líklega einnig í boðskap kirkjunnar manna. Hvað almennar siðareglur
28Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, Ferðabók (Reykjavík, 1943), I, 54. gr.
29Uno von Troil, Bréf frá íslandi (Reykjavík, Menningarsjóður, 1961), bls.
74-75. í mismunandi útgáfum laganna segir ýmist að vinnukona skuli raka
eftir tveimur, þremur eða fjórum körlum. Sjá Anna Sigurðardóttir, Vinna
kvenna á íslandi í 1100 ár (Reykjavík: Kvennasögusafn íslands, 1985), bls.
370.
30Anna Sigurðardóttir, sama rit, bls. 379.