Skírnir - 01.04.1990, Side 126
120
STEFÁN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
Pétur Pétursson, þjóðfélagsfræðingur, hefur í athyglisverðri rann-
sókn þó bent á hversu veigamikið hlutverk prestarnir höfðu í íslenska
miðaldaþjóðfélaginu og allt fram á 20. öld.32 Þeir voru í nánum
tengslum við almenning og höfðu það tvíþætta hlutverk í þjóðfélaginu,
að hafa yfirumsjón með uppfræðslu ungdómsins og að tryggja að eftir
kristilegum aga væri starfað á heimilunum. Fræði Lúthers voru helsta
kennsluefni sem stuðst var við eftir siðaskiptin, og var kver hans
prentað 42svar sinnum á 19. öld, svo dæmi sé tekið. Boðskapur þess fól
meðal annars í sér að alþýða manna skyldi lúta vilja krúnunnar,
klerkanna og húsbænda sinna á heimilunum. Sérstök áhersla var lögð
á hlýðni og undirgefni vinnuhjúa og barna við þessi andlegu og verald-
legu yfirvöld. Kennt var að þetta væri sú skipan mannlífsins sem guði
væri þóknanleg og öll frávik frá henni kölluðu á refsingu frá réttum
yfirvöldum. Þá var einnig í opinberum tilskipunum brýnt fyrir prestum
að prédika gegn landlægri þjóðtrú og hjátrú, ásamt skemmtunum ýmis
konar, því slíkt var talið grafa undan vinnusiðgæði og aga á heimil-
unum. Væntanlega hefur andi Lúthers og siðaskiptanna stuðlað^nokk-
uð að útbreiðslu sömu lífsskoðunar hér á landi og í Evrópu, þ.e. þeirrar
köllunar veraldlegra manna að helga sig vinnunni guði til dýrðar.
A 19. öld er allnokkuð farið að bera á þýddum ritum sem boðuðu
vinnusiðgæði mótmælendatrúarmanna og hagsýna auðhyggju hér á
landi. Sigurður Líndal hefur nefnt nokkur dæmi slíkra rita í inngangi
þeim er hann ritaði að útgáfu á tveimur ritgerðum eftir Max Weber.33
Sigurður nefnir þar rit Johns Milton, Paradísarmissi (1828), og rit Johns
Bunyan, För pílagrímsins frá þessum heimi til hins ókomna (1876), en
báðir þessir höfundar voru Kalvínstrúarmenn. Jón Sigurðsson, forseti,
þýddi ævisögu Benjamíns Franklín eftir J. W. Markmann og gekkst
fyrir því að hún var gefin út á Islandi árið 1839. Skrifaði hann jafnframt
formála að útgáfunni þar sem hann hvetur Islendinga til dugnaðar við
að bæta hag sinn og ganga auðnuveginn upp þjóðfélagsstigann. Tryggvi
Gunnarsson, sem hreifst af ævisögu Benjamíns Franklín, beitti sér síðar
32Pétur Pétursson, Church and Social Change: A Study of the Secularization
Process in Iceland 1830-1930 (Lundi, doktorsritgerð, Plus Ultra, 1983), bls.
52-57. Sjá einnig „Menningarbyltingin á íslandi 1880-1930", eftir sama
höfund, í Leshók Morgunblaðsins, 3. september, 1988, bls. 4-5.
33Sigurður Líndal, Inngangur, í Max Weber, framangreint rit, bls. 32-36.