Skírnir - 01.04.1990, Síða 137
SKÍRNIR
NYTJASTEFNAN
131
hvar spyrna ber við fótum, á meðan leikslokasinnarnir verða að súpa
hverja andstyggð í botn möglunarlaust svo lengi sem nytjakvörnin
malar. Hinir fyrrnefndu geta sagt ‘þetta má ekki, punktur og basta’ á
meðan hinir síðarnefndu verða sífellt að setja kommu þar sem
samviskan segir þeim að setja punkt. Og það er við því sem Anscombe
býður varnað.
Meintur ágalli leikslokakenninganna brýst hér fram á tvennan hátt.
Annars vegar eru þær ómáttugar þess að gera grein fyrir þeim
grunnstuðli alls siðferðis sem eru blá bönn, fyrirmæli um að þetta eða
hitt megi alls ekki gera, eða þá kvaðir um að þetta verði að gera, hvað
sem það kosti. Hins vegar heykja slíkar kenningar okkur sem siðferðis-
verur þar sem þær skipa okkur í senn að vera göfug og góðhjörtuð og
að byrgja augu okkar fyrir argasta ranglæti - ef svo ber undir. Stað-
reyndin er hins vegar sú að góður maður ljær sig ekki til illverka, hann
getur ekki fengið það af sér. Geti hann það er hann ekki lengur góð-
menni.
Þetta eru sem sagt rökin sem Anscombe og margir aðrir hafa teflt
fram. Maður sem ber grómlaust þel leggur ekki göfgi sína í nytja-
kvörnina, hann hlýtur að vera lögmálssinni. Það er síðan enginn endir
á dæmisögum, mishroðalegum en flestum blóði drifnum, sem sýna eiga
afleiðingar leikslokakenninga. Sögunum má skipta í tvo meginflokka.
Annars vegar eru dæmi um það að ég sem leikslokasinni sé knúinn til
að framkvæma einhverja mannskemmandi athöfn þar sem útkoman
hefði að vísu orðið hin sama hvort eð er en a.m.k. ekki beinlínis fyrir
minn tilverknað: Hryðjuverkamaður skipar mér að skjóta gísl, geri ég
það sleppi hann öðrum sex, geri ég það ekki skjóti hann sjálfur alla sjö.
Leikslokakenningin segir ‘skjóttu!’ en sé ég góðmenni get ég það ekki.
Hins vegar eru dæmi um það að ég verði hreinlega í krafti kenningar-
innar að fórna sakleysingja, sem ella hefði sloppið óskaddaður, til að
afstýra enn meira böli: Umkomulaus einstæðingur ráfar af misgáningi
inn á gjörgæsludeild þar sem hjörð af aðstandendum situr með þrungn-
um kveinstöfum við rúm sex sjúklinga á heljarþröm. Yfirlæknirinn,
sem er leikslokasinni, telur manninn kominn eins og kallaðan og gerir
sér hægt um hönd, slátrar honum í kyrrþey en notar líffærin úr honum
til að bjarga hinum deyjandi sjúklingum. Eða: Lögreglustjóri, nýlesinn
í nytjafræðum, gerir einn fastagesta sinna, svartan smáglæpamann, að