Skírnir - 01.04.1990, Page 139
SKÍRNIR
NYTJASTEFNAN
133
stæður, reglum eins og þeim að segja ávallt sannleikann, deyða ekki
saklaust fólk, standa upp fyrir gömlum konum í strætisvögnum og þar
fram eftir götunum. Nú liggur í augum uppi að allir nytjastefnumenn
hljóta að nýta slík boð í daglega lífinu sem vegvísa eða þumalfingurs-
reglur. Við höfum séð að of mikil umhugsun getur stundum verið
sjálfskæð á mælikvarða nytjastefnunnar, og þá dugar oft ekki annað en
fylgja einhverri reglu sem gefist hefur vel við álíka aðstæður fram að
þessu. Reglunytjastefnumenn ganga hins vegar mun lengra en þetta því
að þeir halda því fram að vissar reglur muni auka almenna velsæld sé
þeim fylgt íhugunarlaust og án undantekninga af öllu skynsömu og
siðlega þenkjandi fólki:7 Það má vera að ‘hvít lygi’ geti í einstaka
tilfellum verið besti kosturinn á kvarða athafnanytjastefnu. En slíkar
hugrenningar eru ofurliði bornar af nytjum þess að sannsöglisreglu sé
ævinlega fylgt, hverjar sem aðstæðurnar kunna að vera; því að ef það er
á allra vitorði að slíku ráðlagi sé haldið staðfastlega fram er mun stærri
sigur unninn. Reglunytjastefnan á þannig að geta skotið skildi fyrir
ýmis skilyrðislaus boð og réttindi er frumstæða nytjastefnan hundsar.
Þar með hefði í senn fundist lausn á blóravandanum (aldrei mætti fórna
sakleysingjum) og hinu algilda eðli siðferðisins væri borgið.
Nærri má geta, svo mikillar mæðu sem dæmisögurnar hér að ofan
hafa aflað nytjastefnumönnum, að margir þeirra hafi tekið þessari
úrlausn fagnandi. En hér er eitthvað öðruvísi en það á að vera. Það sem
liggur fyrst og skýrast í augum uppi er að stundum virðist ósaknæmt,
og jafnvel til góðs, að flestir en ekki allir fylgi reglunni. Það er vísast
undurgóð regla að allir frískir farþegar í Akureyrarrútunni hjálpi til við
að ýta henni ef hún festist í snjóskafli á Oxnadalsheiði. En sjái ég (sem
einn farþeganna) að hinir muni auðveldlega hnika henni af stað án
minnar hjálpar þá hlýtur það að auka heildarhamingju heimsins að ég
látist bara ýta en spari í raun kraftana fyrir verðugri viðfangsefni - þ.e.
svo fremi að hitt fólkið viti ekki að ég svíkst undan. (Vandi skapast hins
vegar ef allir hugsa svona! Þetta er kallað ‘the free rider problem’ og er
fjölrætt víðar en í nytjastefnufræðum.) Alvarlegri meinbugur á reglu-
7 Einn skeleggasti reglunytjastefnumaður samtímans er John C. Harsanyi.
Dæmi um kenningu hans er m.a. greinin „Does Reason Tell Us What
Moral Code to Follow and, Indeed, to Follow Any Moral Code at All?“,
Ethics 96 (1985).