Skírnir - 01.04.1990, Page 141
SKÍRNIR
NYTJASTEFNAN
135
Hvöt er því betri sem hún vekur okkur til fleiri heilladrýgra athafna.
Slíkar hvatir er hollt að rækta með sér, jafnvel þótt það þýði að breytt
sé ‘rangt’ í einstökum tilvikum. Hjá slíku verður einfaldlega ekki
komist, við getum ekki bæði haldið og sleppt. Tökum það dæmi að ég
komi að slysstað þar sem flugvél hefur farist og slasað fólk liggur eins
og hráviði út um allt. Ég hef lært hjálp í viðlögum og ætla því að reyna
að liðsinna sem flestum. Sé ég þá ekki hvar bernskuvinur minn liggur
í blóði sínu, þungt haldinn. Ég geng til hans og kemst brátt að raun um
að hann eigi stutt eftir ólifað. Ég er talinn traustur og góðlyndur maður
og því veldur m.a. sú sterka hvöt sem ég hef til þess að reynast vinum
mínum trúr. í þessu tilfelli hika ég ekki, ég hætti að velkja í huga mér
hvar borið skuli niður svo að sem mestur árangur náist, ég sest einfald-
lega hjá bernskuvininum og held í hönd hans á meðan lífið fjarar út. Ég
gleymi öllum hinum slösuðu mönnunum, sem ég hefði þó ef til vill
getað bjargað frá bráðum bana, ekki þrdtt fyrir að ég sé góðmenni held-
ur einmitt vegna þess. Lærdómurinn sem draga á af þessu gagnvart
blóravandanum er síðan sá að það sé til heilla að menn rækti með sér
hvatir er útiloki að þeir fórni saklausum mönnum, jafnvel þótt slíkt
stangist endrum og sinnum á við ýtrustu kröfur athafnanytjastefn-
unnar.
En bíðum nú við. Ef ég gat alls ekki á sama tíma verið góðmenni og
yfirgefið vin minn þá er auðvitað rangt að athafnanytjastefnan krefjist
þess að ég framkvæmi hið ómögulega. Svar Adams yrði að auðvitað
hefði ég getað farið og liðsinnt öðrum en þá hefði ég ekki lengur verið
sá sem ég átti að mér, það hefði rýrt gildi mitt sem siðferðisveru. En þá
liggur nærri að slöngva framan í Adams eftirfarandi ógöngurökfærslu:
Ef ég gat farið án þess að glata góðmennsku minni þá átti ég að gera
það, ef ég gat það ekki þá ‘átti’ ég ekki að gera það. En þetta eru hvort
tveggja klár og kvitt athafnanytjarök, engu nýju hefur verið bætt við
Það er með öðrum orðum ekkert í hvata- fremur en reglunytjastefn-
unni sem hefðbundinni athafnanytjastefnu ber ekki að taka fullt tillit til.
Hér erum við komin að mikilvægum punkti. Nytjastefnan er mjög
næm fyrir raunhæfum sannindum um lífið og tilveruna; þar nýtur hún
m.a. föðurarfsins frá raunhyggjumanninum Mill. Hún gerir ekki
óraunhæfar kröfur, skipar okkur ekki að gera það sem við getum ekki
(enda væri slíkt til baga, ekki heilla!). Ef það er satt í reynd að sum eða