Skírnir - 01.04.1990, Síða 145
SKÍRNIR
NYTJASTEFNAN
139
okkur síðan líffræðing sem ráðherra launar áralanga hollustu við
Flokkinn með því að bjóða honum að hafa umsjón með hvalaveiðum
í vísindaskyni. Líffræðingnum hugnast áætlun þessi illa, bæði af fræði-
legum og tilfinningalegum ástæðum. Hann er hvalavinur og hefur
skrifað lærðar greinar í blöð urn greind þeirra skepna. Samt veit hann
að þiggi hann boðið geti hann komið því til leiðar smám saman að
dregið verði úr veiðunum og þeim jafnvel hætt. Á hann að brjóta odd
af oflæti sínu, eins og einhver myndi orða það, og fórna hugsjón sinni
nú fyrir langtíma ávinning, eða sjá sóma sinn í að afþakka gott boð?
Eitt fer ekki á milli mála, að manni sýnist: Nytjastefnumaður
myndi - ef ekki skipa lækninum og líffræðingnum að þiggja þessi
embætti þá a.m.k. ráðleggja þeim að skoða kosti þess vandlega áður en
þeir veittu afsvar. Að sjálfsögðu mætti taka með í dæmið nytjar þess að
vera trúr hugsjónum sínum, ‘prinsippum’ eins og það yrði orðað af
almenningi, en slíkt væri aðeins ein forsenda meðal margra annarra,
m.a. þeirra að geta, þegar til lengdar léti, bjargað fjölda hvala og fóstra
frá vísum dauða.
Þetta snertir kjarna þess vanda sem Bernard Williams þreytist aldrei
á að bregða nytjastefnumönnum um að standa andspænis, heilinda-
vandans: Sum hugðarefni okkar skuldbinda okkur til fylgis við vissar
hugsjónir og kappsmál sem eiga djúpar rætur í sálarlífi okkar. Og
hvernig getum við litið á hugðarefni, skuldbindingar sem eru þunga-
miðja okkar eigin tilveru, aðeins sem eina forsendu meðal margra
annarra? Hvernig getum við skyndilega metið minna en hundshár
reglur um gildi lífs eða greind hvala sem við höfum lagt okkur í líma við
að verja? Hið ranghverfa í fari nytjastefnumannsins er, að dómi
Williams, að hann setur höfuðið í hjartans stað. Hann leggur öll
hugðarefni sín á vogaskálar nytjastefnunnar, jafnvel þau sem honum
eru hjartfólgnust. En slíkan mann skortir allan merg, alla staðfestu.
Hann getur hvorki verið trúr sjálfum sér né öðrum. Allt má selja, öllu
má rifta. Vináttubönd, lífsskoðanir; allt er valt, allt er falt ef nóg er
boðið á móti. Afleiðingin? Firring og óheilindi.15
Heilindahugtakið kemur víða við sögu í siðfræði og um það mætti
skrifa langt mál. Það er t.d. lykilhugtak í heimspeki Jean-Paul Sartres
og gegnir mikilvægu hlutverki í hinni frægu ritdeilu Sigurðar Nordals
15Sbr. sama rit, bls. 108-18.