Skírnir - 01.04.1990, Síða 146
140
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
og Einars H. Kvarans. Bæði hjá Nordal og Sartre merkja heilindi
umfram allt lausn undan sjálfsblekkingu, lausn undan trú á ímyndað
algildi í gildisrúnum heimi (Sartre) eða dufli við „lítilþægan guð“16 sem
menn hjúfra sig upp að (Nordal). Hjá Williams er heilindahugtakið
skilið ögn óbrotnari og hversdagslegri skilningi: Að vera heill merkir
einfaldlega að vera þéttlyndur, staðfastur, sjálfum sér samkvæmur og
trúr hugsjónum sínum. Og kenningin er síðan sú að þetta geti nytja-
stefnumaður ekki verið, stefnan sjálf grafi undan manngildi hans. Það
er þetta ‘geti ekki verið’ sem við þurfum að fara í saumana á. Er átt við
a) að það sé siðferðilega óhugsandi (ósamrýmanlegt réttu siðferði) eða
b) ókleift sálrænt eða röklega? í víðlesnu inngangsriti um nytjastefnuna,
sem Williams samdi ásamt einum talsmanna hennar, J.J.C. Smart,
leggur hann höfuðáherslu á fyrra atriðið. Þegar nytjastefnan leggur að
manninum í dæmisögunni að skjóta sjöunda gíslinn og bjarga hinum
sex þá er horft framhjá hinum siðferðilega greinarmun þess að koma
einhverju í kring sjálfur og að verða óvart þess valdandi að hið sama
gerist - en þar sem verknaðurinn á upptök sín hjá öðrum aðila. Ef ég
skýt gíslinn þá er ég morðingi, ef ég skýt hann ekki þá verð ég óbeint
valdur að dauða hinna sex en ábyrgðin liggur hjá hryðjuverka-
manninum, ekki mér.17
Ég ætla að neita mér um þann munað að orðlengja um þessi rök
Williams, enda byggja þau á mjög hæpnum skilsmun þess sem gert er
og látið er ógert og á vafasamri beitingu i£yrg<Whugtaksins. Miklu
sterkari rök fyrir heilindavandanum er hins vegar að finna í annarri
grein höfundar. Þar er ekki lengur hnýtt að hinum siðferðilega heldur
hinum sálræna og röklega þætti: Það sem knýr okkur áfram í lífinu, það
sem gefur okkur drifkraft til að amla gegn veðrum og vindum, eru
vissar ófrávíkjanlegar langanir og hvatir sem skera í raun úr um hvort
lífið hafi einhvern tilgang fyrir okkur. Hér getur verið um að ræða ást
á maka okkar eða börnum sem við sjáum ekki sólina fyrir, trúnað við
vini, tryggð við málefni sem okkur eru hjartfólgin, o.s.frv. Nytjastefnan
16Ein greina Nordals heitir raunar „Heilindi", sjá Skiptar skoðanir (Bóka-
útgáfa Menningarsjóðs, 1960). Um hinn lítilþæga guð, sjá einnig Áfanga I
(Helgafell, 1943), bls. 128. Óheilindahugtaki Sartres má kynnast í bók hans
Veru og neind (ýmsar útgáfur), 2. kafla, 1. hluta.
17Sbr. Utilitarianism: For and Against, bls. 108-18.