Skírnir - 01.04.1990, Page 150
144
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
barninu úti, hvað sem öllum heilindum liði. En hann vildi áreiðanlega
að hann sliti sig frá konunni af öðrum ástæðum en þeim að hann hefði
reiknað út að það yki heildarhamingjuna meir heldur en að vera kyrr.
Williams, eins og fleiri andstæðinga nytjastefnu, virðist dreyma um að
menn breyti frá öndverðu rétt sjálfkrafa og íhugunarlaust, þeir treysti
á tilfinningu í stað útreikninga. En svo ómannlegt sem það kann að
þykja að treysta jafnan á skynsamlega yfirvegun aðstæðna, þá sýnist
mér hitt þó enn óraunsærra og háskalegra að stóla á að eitthvert inn-
borið siðaskyn láti okkur í té niðursoðnar skyndilausnir á skelfilegum
vandamálum.22
4. Samrunavandinn
Frægasta siðfræðirit síðari ára er Kenning um réttlæti eftir John
Rawls.23 Það er engin hending að stór hluti þess rits er andóf gegn
nytjastefnu. Rawls hefur með réttu virst að fyrst yrði að þoka þessari
útbreiddu stefnu um set til að skapa svigrúm fyrir hans eigin kenningu.
Helsti ljóðurinn á ráði nytjastefnunnar (og raunar sá sem steypir henni
af stalli) er, að dómi Rawls, að henni láist að taka tillit til sérstöðu eða
aðgreinanleika persóna. I fyrsta lagi er ljóst að þótt nytjastefnan leggi
allt upp úr fullnægingu langana þá hirðir hún aldrei um löngunum
hverra sé fullnægt. Þannig er enginn munur gerður á vali og óskum
einstaklinga annars vegar en hópa hins vegar. Þetta er síðan ástæða þess
að nytjastefnumenn sjá ekkert athugavert við að ívilna einum á kostnað
annarra, þeim finnst jafnvel einskis vant þó að einn maður fyrirfarist ef
annar hópur eða maður, jafnsæll eða sælli, kemur í hans stað. En með
því að krefjast þess að einstaklingar fórni sífellt eigin hagsmunum fyrir
velferð heildarinnar þá grefur nytjastefnan undan sjálfsvirðingu þeirra.
Þetta er síðan, í öðru lagi, dæmi um það hvernig einstaklingurinn er
stöðugt gerður að blóraböggli. Um leið og hann hættir sér út á kenn-
ingaklaka nytjastefnunnar verður hann að gefa upp á bátinn sinn per-
sónulega sjónarhól en líta á allt frá einhverjum öðrum, æðri og óper-
sónulegri sjónarhóli. Og hann verður að fórna þeim einstaklings-
22Sbr. sama rit, bls. 270-273.
23 Ég þýði hér heiti bókarinnar A Theory of Justice.