Skírnir - 01.04.1990, Side 151
SKÍRNIR
NYTJASTEFNAN
145
bundnu hugðarefnum sem honum eru þó mun kærari en sem nemur
hlutfallslegu vægi þeirra á nytjaskálunum. í þriðja lagi ætlast nytja-
stefnan til þess að við leggjum á einn kvarða og metum ólíkar hug-
myndir manna um það í hverju hamingja þeirra felist. En þar með
skipar hún okkar að bera saman hið ósambærilega.
Hvað er þá sameiginlegt með þessum þremur villum? Það er það að
ólíkir aðilar eru bræddir saman í einn. Reglur sem gilda myndu fyrir
einn mann eru látnar gilda fyrir þjóðfélagið í heild og litið er á hópa sem
sjálfstæðar persónur með samkynja langanir. Þetta er inntak
samrunavandans sem Rawls talar um: Nytjastefnan skilur ekki sérstöðu
einstaklinga, hún villist á ópersónuleika og óhlutdrægni og leggur ekki
meir upp úr einstökum persónum í siðaboðum en fiskifræðingar úr
einstökum þorskum í aflaspám.
Gegn þessum ‘hroða’ teflir Rawls svo fram réttlætiskenningu sinni.
Hér er ekki tóm til að gera grein fyrir henni, enda að nauðsynjalitlu þar
sem henni hafa þegar verið gerð ágæt skil á íslensku, m.a. í þessu
tímariti.24 Þess má þó geta að lykilhugmyndin er sú að samfélagið
byggist á sáttmála eða sáttargjörð, er tryggi hagsmuni allra, og sé sú
gjörð sett saman úr lögmálum er skynsamt fólk myndi kjósa sér sjálft
í sanngjörnum upphafspunkti. í þeim punkti eru kjósendúrnir rúnir
mestallri vitneskju um smekk sinn, langanir, hugðarefni og
þjóðfélagsstöðu og hljóta því að velja lögmál sem þeim skini gott af,
hverjar sem aðstæður þeirra kynnu að verða. Forsjálni þeirra og
varkárni mun þá m.a. valda því að þeir hafna nytjalögmálum, sem stefnt
geta í voða hagsmunum vissra einstaklinga (kannski þeirra sjálfra!)
vegna heildarinnar, en kjósa yfir sig fjalldalareglu er kveður á um að öll
misskipting eða ójöfnuður megi þjóna þeim tilgangi einum að hagur
þeirra verst settu verði sem bestur. Hér vinnst tvennt, að dómi Rawls,
sem tekur nytjastefnunni fram: Annars vegar fær siðferðið á sig svip
lögmáls- í stað leikslokakenninga, sem virðist koma betur heim við
hugmyndir okkar um eðli þess, og hins vegar eru sálir manna ekki
lengur dregnar upp á eina seil heldur er gildi einstaklingsins á ný metið
að verðleikum.
24Sbr. ritgerð Þorsteins Gylfasonar, „Hvað er réttlæti?“, Skírnir (1984), bls.
200-204. Þá samdi Þorsteinn þrjú útvarpserindi um kenningu Rawls sem
hafa verið tvíflutt.