Skírnir - 01.04.1990, Page 153
SKÍRNIR
NYTJ ASTEFN AN
147
að vega þyngra á nytjavoginni en skammvinnur ávinningur. Nytja-
stefnan getur þannig orðið grundvöllur algildra reglna þó að þær séu að
vísu alltaf reyndaratriði, ekki fyrirfram gefnar í eðli manns eða heims.
Þeir sem ala á öllum þeim aðskiljanlegu vandamálum sem nytja-
stefnumenn eiga að standa frammi fyrir, og tíunduð eru hér að framan,
hafa misst sjálfs kjarnans í kenningunni.
En hér er að miklu leyti við talsmenn nytjastefnunnar sjálfrar að
sakast. Þeir hafa margir gert þann óvinafagnað að boða kenningu sína
á svo frumstæðan og klunnalegan hátt að auðveldlega má snúa út úr
henni. Þetta hafa andstæðingar þeirra fært sér í nyt svo að um munar,
enda er sagt að auðlærð sé ill danska. Þar sem eigin framsetning nytja-
stefnumannanna hefur þannig verið notuð sem grundvöllur rökræðna
hafa þeir tíðum átt undir högg að sækja. Jafnvel eru mörg dæmi þess að
nytjarökum hafi verið beitt af báðum aðilum til þess að styðja
niðurstöður sem í raun ganga þvert á boðskap nytjastefnunnar.
Varla getur skýrara dæmi slíks en í rökum sem færð eru fram með
og móti fóstureyðingum. Um það álitamál er deilt sárbeittu kappi, sem
kunnugt er, og er umræðan oft þrungnari af tilfinningum en rökum.
Hér verður ekki borið við að leiða fóstureyðingavandann til lykta en
hann aðeins tekinn sem dæmi um svið þar sem menn hafa verið helsti
fljótir að gefa sér afstöðu nytjastefnunnar. Fyrst er til að taka að
talsmenn fóstureyðinga virðast oft eiga þungan málahlut í þessum
deilum. Ástæðan er sú að tvær algengustu röksemdir þeirra, um rétt
móður yfir eigin líkama og skil milli fósturs og persónu, hvíla báðar á
veikum grunni; sú fyrri vegna þess að réttur eins takmarkast jafnan af
rétti annars (hér fósturs og/eða föður) og sú seinni vegna þess að
umrædd skil virðist aðeins hægt að draga á handahófskenndan hátt. Því
er það svo í dæmigerðum rökræðum af þessu tagi að talsmennirnir eru
reknir á skipulegt undanhald uns þeir þykjast á endanum finna öruggt
hæli í nytjarökum, um mat á sársauka og sælu, böli og hamingju. Og
þetta er raunar ósköp eðlileg framvinda, því að séu einhver rök til fyrir
fóstureyðingum þá er ekki ótrúlegt að þau velti á velferð fólks almennt.
Við bætist sxðan að jafnt fjandmenn sem forsvarsmenn nytjastefnu hafa
lokið upp einum munni um að hún sé mjög hliðholl fóstureyðingum.
Þannig segir Guðmundur Heiðar Frímannsson í einni merkustu um-
fjöllun á íslensku um fóstureyðingar að nytjastefnan leiði af sér að ef