Skírnir - 01.04.1990, Side 154
148
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
móðir, sem af einhverjum ástæðum vilji ekki ala barnið sem hún ber
undir belti, fari fram á fóstureyðingu þá beri að heimila hana ef fyrir-
sjáanlegur sársauki sé meiri en ánægjan. En þetta gildir einnig, segir
Guðmundur, um nýfædd börn: „Ef þau valda foreldrum sínum og
öðrum, sem þau umgangast, meiri sársauka en gleði, þá má svipta þau
lífinu." Ályktun hans er að nytjastefnan hafi þannig afleiðingar sem
ómögulegt sé að fallast á og að henni beri því að hafna.27 Nytjastefnu-
maðurinn Jonathan Glover er hreint ekki á sama máli í bók sinni Að
valda dauða og bjarga lífi en þó gengur ekki hnífurinn milli hans og
Guðmundar að einu leyti: því að nytjastefnumenn hljóti að vera
meðmæltir fóstureyðingum í flestum tilfellum. Glover skilyrðir þá
niðurstöðu að vísu með ýmsu móti sem ekki verður sagt frá hér. En
helsta draumsýn hans er að fullkomin fóstureyðingapilla komist á
markaðinn, þannig að konur séu ekki lengur upp á duttlunga lækna-
stéttarinnar komnar heldur geti möndlað við þetta sjálfar á klósettinu
svo að enginn viti af.28
Vera má að Guðmundur og Glover séu hér að reka þann fleyg nytja-
stefnunnar sem best gengur; og vissulega er hárrétt að sé böl við fóstur-
eyðingu minna en hamingjan sem af henni hlýst hlýtur nytjastefnu-
maður að samþykkja hana. En hér er að mörgu að hyggja. Hvenær er
það fyrirsjáanlegt að „sársauki“ við barnsburð sé meiri en ánægjan,
þ.e.a.s. þegar heilbrigð fóstur eiga í hlut? (Ef fóstrið er vanskapað snýst
deilan fremur um réttmæti líknardráps en fóstureyðingavandann.) Við
getum í upphafi fylgt Hare í því að bera brigður á að dæmin sem tekin
eru séu raunhæf. Skyldu margar mæður búa við þær aðstæður í heims-
hluta okkar að yfirgnæfandi líkur séu á því fyrirfram að líf barnsins
verði gleðisnautt og harmþrungið? Varla, a.m.k. ekki þegar haft er í
huga að þúsundir hjóna bíða málþola eftir því að ættleiða börn og
umvefja þau með ástúð sinni. En við skulum nú samt gefa talsmanni
fóstureyðinga þetta eftir og fallast á að oft megi leiða að því líkur fyrir
fæðinguna að líf barnsins verði þyrnum stráð, að móðirin verði fyrir
ýmsum óþægindum o.s.frv. Þetta eru hins vegar alls ekki eirw nytja-
rökin sem taka verður tillit til. Það er líka staðreynd, sem sálfræðingar
27Sbr. opinn fyrirlestur Guðmundar við Háskólann á Akureyri í janúar 1988,
„Eru fóstureyðingar morð?“, prentaður í Frelsinu 1-2 (1989), bls. 43.
28Sbr. J. Glover, Causing Death and Saving Lives (Penguin, 1977), bls. 143.