Skírnir - 01.04.1990, Page 165
SKÍRNIR STJÓRNSPEKI OG MIÐALDAHÁSKÓLAR
159
háskóla sé í veigamiklum atriðum röng. í öðru lagi bendum við á að
kennslustjóri taki ekki tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á
háskólum og fræðigreinum í tímans rás, jafnframt því sem honum hafi
yfirsést hve nútímaþjóðfélög eru ólík hinu ítalska miðaldaþjóðfélagi,
sem hann virðist miða hugmyndir sínar um skipulag háskóla að mestu
við. í þriðja lagi greinum við frá tillögum stjórnsýslunefndar og
freistum þess að leiðrétta misskilning kennslustjóra varðandi þær. Að
lokum fjöllum við um vinnubrögð kennslustjóra, eins og þau birtast í
umræddri ritgerð, og leiðréttum rangfærslur hans um vinnubrögð
stjórnsýslunefndar.
Um uppruna nútímaháskóla
Halldór Guðjónsson heldur því fram í umræddri ritgerð að rétt sé að
líta á háskóla sem altæk samfélög í sama skilningi og trúfélög eða
klausturreglur. Hann segir orðrétt:
Evrópskir háskólar voru upphaflega samfélög í nákvæmlega sama skilningi
og klausturreglur. Samheitið Universitas sem háskólar einir falla nú undir, er
komið úr rómverskum lögum og náði til félagseininga, sem einkenndust af
því að félagsmenn lifðu öllu sínu lífi innan þeirra. Þannig voru trúarreglur
ýmis konar, þar sem innvígðir helguðu sig í samneyti að fullu og öllu í
dýrkun einhvers guðs eða guða, gleggstu dæmin um universitas. (bls. 410)
Ef litið er til uppruna þess háskóla sem talinn er elstur í Evrópu, þ.e.
Háskólans í Bologna á Italíu, má sjá að það samfélag, sem þar þróaðist,
átti lítið sameiginlegt með klausturreglum. Fyrstu háskólasamfélögin í
Bologna voru samfélög stúdenta eða kennara frá tilteknum löndum eða
innan tiltekinna fræðasviða, sem höfðu þann megintilgang að vernda
hagsmuni þessara aðila. Þannig mynduðu stúdentar frá einstökum
löndum með sér „samfélög" í því skyni að vernda hagsmuni sína í fram-
andi umhverfi, þar sem réttindi útlendinga voru fremur bágborin. Á
sama hátt mynduðu kennarar í Bologna, sem í upphafi voru ráðnir til
kennslu af stúdentum en ekki borgaralegum eða kirkjulegum yfir-
völdum, með sér sín eigin samfélög. I hinni þekktu bók sinni The
History ofWestern Education (1977) rita þeir W. Boyd og E. J. King
um uppruna hugtaksins „háskólasamfélag":