Skírnir - 01.04.1990, Page 166
160
STEFÁN OG ÞÓRÓLFUR
SKÍRNIR
Háskólar, í upphaflegri merkingu þess orðs, voru einfaldlega samfélög
(„societies") eða gildi meistara og nemenda, mynduð í þeim tilgangi að veita
gagnkvæma hjálp og vernd að fyrirmynd þeirra iðnaðarmannagilda sem risu
til áhrifa í viðskiptalífi Evrópu á 12. öld. (bls. 138)
Þó að margt sé til í því að háskólar hafi löngum haft yfir sér klausturs-
legt yfirbragð, telja Boyd og King að fyrirmyndina að fyrstu háskóla-
samfélögunum sé ekki að finna í trúfélögum, heldur í iðnaðarmanna-
gildunum með meisturum, lærlingum, formlegum viðurkenningum og
brautskráningu. Stúdentar fóru í læri til tiltekinna kennara og eftir ára-
langt nám var þeim veitt innganga í samfélag meistaranna með tilheyr-
andi skyldum og réttindum. Eins og A.B. Cobban (1975) hefur bent á
í bók sinni um háskóla á miðöldum, voru þeir fyrst og fremst eins
konar starfsmenntaskólar, sem undirbjuggu nemendur sína undir til-
tekin störf í þjóðfélaginu. Hér var um að ræða ýmiss konar fagmenntun
einkum á sviði guðfræði, læknisfræði, lögfræði og kennslu. Markmið
flestra nemenda var að fá vel borgað og öruggt starf innan ramma ríkj-
andi skipulags að námi loknu. Fremur lítið fór fyrir nýsköpun og öflun
nýrrar þekkingar (sjá t.d. bls. 165). Áherslan á frjálsa þekkingarleit og
nýsköpun verður ekki meginmarkmið háskóla fyrr en á 19. öld. Þessi
tilurð háskólanna skýrir að nokkru leyti, hversu fljótt kom til átaka við
borgaraleg og kirkjuleg yfirvöld um sjálfsákvörðunarrétt háskólanna,
en baráttan fyrir sjálfstæði háskóla hefur staðið nær óslitið fram á
þennan dag. Það er því villandi þegar kennslustjóri gefur í skyn í ritgerð
sinni að sjálfræði háskóla sé gefið en ekki áunnið (bls. 410—411).
Það vekur athygli við lestur ritgerðar Halldórs Guðjónssonar að
hvergi er vikið að alþjóðlegu eðli háskóla, sem þó verður að telja eitt
helsta einkenni þeirra. Fyrstu háskólarnir einkenndust af því að þeir
löðuðu til sín stúdenta og kennara frá ýmsum löndum. Þessi alþjóða-
hyggja náði einnig til prófgráða, því litið var svo á að háskólagráða
veitti nemendum rétt til að kenna við hvaða háskóla sem væri. Enn er
þessi alþjóðahyggja í góðu gildi, sem má m.a. sjá á því að alþjóðlegur
samanburður er mikilvægur þáttur í starfi flestra háskóla, svo sem við
ráðningu háskólakennara og viðurkenningu á háskólagráðum.
Staðreyndir um tilurð háskóla hafa skolast til hjá Halldóri og þær
ályktanir sem hann telur að megi draga af þeim um „eðli“ háskóla eru
því næsta marklausar. Saga evrópskra háskóla sýnir að upprunalegt