Skírnir - 01.04.1990, Side 168
162
STEFÁN OG ÞÓRÓLFUR
SKlRNIR
Þótt undirritaðir séu ekki tilbúnir til þess að fallast á þessa upptalningu
eins og hún stendur, gefur hún til kynna hversu hlutverk háskóla nú á
tímum eru margþætt og tengsl þeirra við þjóðfélagið fjölbreytileg.
Samfara breyttum atvinnuháttum hafa háskólarannsóknir t.d. tekið
verulegum stakkaskiptum. Fjöldi aðstoðarmanna við rannsóknir hefur
margfaldast og kostnaður við rannsóknir almennt aukist verulega. Há-
skólakennarar fjármagna rannsóknir sínar í auknum mæli með
fjárframlögum utan frá, bæði frá atvinnufyrirtækjum og opinberum
rannsóknasjóðum. Þessu hefur einnig fylgt aukin samvinna í rann-
sóknum innan háskóla og milli þeirra. Háskóli íslands hefur ekki farið
varhluta af þessum breytingum, eins og fram kemur í grein dr. Þóris Kr.
Þórðarsonar prófessors, „Frá embættismannaskóla til vísindaseturs“:
Þróunarsaga Háskólans tók stökk fram á við í átt að auknum rannsóknum á
sjöunda áratugnum, eins og áður sagði. Þessu tengdist almenn skoðun, sem
um þær mundir var að ryðja sér til rúms: Að á íslandi væri að rísa ný gerð
þjóðfélags, byggð á tækni, vísindum og efnahagsframförum. (1986, bls. 13)
Nánari tengsl háskóla, atvinnulífs og atvinnuþróunar hafa einnig haft
áhrif á kennslufyrirkomulag. Námsframboð hefur stóraukist auk þess
sem endurmenntun og símenntun hefur farið mjög vaxandi. Þá sinna
háskólar í auknum mæli almennri fullorðinsfræðslu. Enn má nefna, að
áhersla á þverfaglega kennslu og rannsóknir, samþættingu námsgreina
og samstarf milli skóla og jafnvel landa, hafa breytt kennsluháttum há-
skólanna.
Allt hefur þetta haft í för með sér að starfsfólki hefur fjölgað og
stjórnsýslan breyst. Þannig hefur stundakennurum, aðstoðarfólki við
rannsóknir, skrifstofu- og stjórnsýslufólki fjölgað víðast hvar. Samfara
sérhæfingu og harðnandi samkeppni um takmarkað ráðstöfunarfé
hefur ágreiningur um markmið og leiðir í háskólastarfinu aukist. Sú
skoðun að háskólar séu ekkert einkamál kennara og nemenda á auknu
fylgi að fagna í þjóðfélaginu, sem hefur leitt til þess að stjórnvöld gera
meiri kröfur en áður um að háskólar geri viðhlítandi grein fyrir störfum
sínum. Þetta, ásamt meiri kröfum um lýðræði og ábyrgðarskyldu, hefur
kallað á opnari umræðu um málefni háskólanna og öflugri upplýs-
ingamiðlun innan þeirra en áður.
I greiningu sinni á „eðli“ háskóla gerir Halldór enga tilraun til þess