Skírnir - 01.04.1990, Side 183
SKÍRNIR
AÐ LÆRA AF SÖGUNNI
177
sem má stíga á strik eða grípa bolta. Sagnfræði án sannleikskröfu um
staðreyndir væri orðin að öðrum ágætum leik, nefnilega skáldskap.
Ég hef grun um að mörgum finnist ég niðurlægja fræðigrein mína
þegar ég hafna kröfunni um að niðurstöður hennar séu algild sannindi.
Þegar ég á að snúast við ásökunum um það dettur mér stundum í hug
saga sem móðir mín sagði mér í bernsku. Séra Jónas Jónasson á
Hrafnagili samdi og gaf út nokkrar sögulegar skáldsögur. Gamalli
konu, sem ég kann því miður ekki að nafngreina lengur, var sagt að
þessar sögur séra Jónasar væru ekki sannar, þær væru skáldskapur. Þá
sagði sú gamla: Ekkert skil ég í prestinum að vera að ljúga þessu öllu
upp. Þessi gamla kona, sem hefur líklega verið alin upp í raunsæishefð
íslenskra fornsagna, kunni ekki að gera greinarmun á skáldskap og lygi.
A sama hátt held ég að sumir samtímamenn mínir flaski á því að greina
á milli ósanninda og sagnfræði, eins og henni er rétt lýst.
En er saga þá ekki bara ein tegund af skáldskap? „Þegar ég var ungur
þótti mér mikið til um að heyra að, gagnstætt því sem virðist, væri
hvalurinn ekki fiskur. Nú hef ég minni áhuga á svona flokkun,“ byrjar
Edward Carr einn af frægum fyrirlestrum sínum í bókinni What is
History ?2 Þá er hann raunar að tala um hvort saga sé vísindi eða ekki,
en mér er skapi næst að segja það sama um sögu og skáldskap. Hitt er
víst að orðið skáldskapur er ekki vant að ná yfir sagnfræði, og ég sé ekki
ástæðu til að fara að kenna því það eftir að það er komið á þennan aldur.
Óneitanlega er viss munur á sagnfræði og dæmigerðum skáldskap.
Einn er sá sem ég minntist á áðan, að saga er, eða á samkvæmt reglunni
að vera, búin til úr raunverulegum, sögulegum staðreyndum eingöngu.
Af því leiðir svo að hvert nýtt fróðleiksatriði í sögu þarf að vera
samrýmanlegt öllum sögulegum fróðleik sem er vitaður fyrir, eða hafna
honum. Sá sem segir: Kristnitakan á íslandi fór fram árið 999, hann er
þar með að mótmæla öllum sem hafa tímasett hana árið 1000.
Skáldskapur gerir enga slíka kröfu. Þegar Halldór Laxness kýs að kalla
konu Magnúsar Sigurðssonar júnkæra í Bræðratungu Snæfríði en ekki
Þórdísi, eins og hún hét í raun og veru, þá er hann ekki að andmæla því
sem segir í Sögu íslendinga VI, s. 82. Þetta er meðal annars munurinn
2 Carr, E.H.: What is History? The George Macaulay Trevelyan lectures
delivered in the University of Cambridge January-March 1961
(Harmondsworth: Penguin 1965), s. 56.