Skírnir - 01.04.1990, Page 184
178
GUNNAR KARLSSON
SKÍRNIR
á skáldskap og sögu, en hitt er ég sannfærður um að þessar tvær iðjur
eiga meira sameiginlegt en oftast er látið vaka í veðri.
Ég veit ekki hvort þessi hugleiðing mín um sagnfræði á við nokkra
grein mannlegra fræða aðra. Sennilega ekki, nema þá að litlu leyti. Hins
vegar held ég að hún skipti öll mannleg fræði máli vegna þess að örlög
sagnfræðinnar í heimi fræðanna, síðustu öldina eða svo, séu fróðlegt
dæmi sem kann að eiga sér hliðstæður um aðrar greinar mannvísinda.
Náttúruvísindin hafa skilað svo glæsilegum árangri á þessum tíma að öll
vísindi og fræði hafa leitast við að taka upp aðferðir þeirra. Það hefur
ekki verið viðurkenndur neinn fræðilegur mælikvarði annar en sá sem
hefur verið í gildi í raunvísindum. I sagnfræði sjáum við merki þessarar
óheppilegu fyrirmyndar einkum í tvennu: Annað er það að áhersla
hefur verið lögð einhliða á að fara rétt með staðreyndir. Það hefur verið
látið eins og réttar, sannaðar staðreyndir væru allt sem skipti máli í
sögu. Nú er auðveldara að sanna staðreyndir um smá atriði en stór. Því
hefur iðja of margra sagnfræðinga orðið sú að leita öruggrar vitneskju
um eitthvað sem enginn hefur áhuga á að vita, nema í mesta lagi einn
eða tveir aðrir sagnfræðingar. Hina óheppilegu afleiðinguna leiðir beint
af þeirri fyrri, nefnilega að menn hafa einangrað sagnfræðina frá því
þjóðfélagi sem hún á að þjóna og ganga inn í. Það hefur jafnvel þótt
virðingarvert að setja mál sitt fram á torskilinn hátt. Sagnfræði hefur
þannig orðið hógvær og fyrirferðarlítil grein í háskólum heimsins, en
sögubækurnar sem fólk les skrifa skáld og blaðamenn.
Ég kenni þetta óheppilegri fyrirmynd náttúruvísindanna, en
auðvitað dettur mér ekki í hug að það sé náttúruvísindunum að kenna.
Það er ekki sök snillingsins þótt apað sé eftir honum. Það er slappleiki
okkar og skortur á frumleika að vanrækja að skapa fræðum okkar
sjálfstæða, skynsamlega ímynd. Um það eigum við mannvísindamenn
að hugsa.
Gunnar Karlsson
Þessi hugleiðing er að stofni til fyrirlestur sem höfundur hélt á ráðstefnu hug-
og félagsvísindadeildar Vísindaráðs, „Þekktu sjálfan þig“, 28. október 1989.