Skírnir - 01.04.1990, Page 192
186
GARÐAR BALDVINSSON
SKÍRNIR
íslenskri þýðingu Ólafar Eldjárn (Purpuraliturinn).' Helstu niðurstöður
mínar eru þær að þrátt fyrir ýmsar góðar lausnir í þessum þýðingum skorti
nokkuð á stefnumörkun og markviss vinnubrögð hjá þýðendum, og að vegna
hinna mörgu og ólíku aðferða sem þeir beita jaðri á stundum við að
merkingarheimar verkanna afbakist.
Hvít millistétt - svört slóð
Svartar skáldkonur í Bandaríkjunum eiga við þann vanda að glíma, umfram
hvítar stallsystur sínar, að hafa haldlitla hefð að styðjast við - helstu stoðir eru
frásagnir svartra þræla frá síðustu öld og hefð feminismans sem í raun er þó
hlaðin hvítum gildum og jafnvel millistéttarviðhorfum. Svartir kvenrit-
höfundar á okkar tímum þurfa ekki aðeins að finna sér og skapa aðferðir til
að koma reynslu sinni og stöðu innan samfélagsins yfir í bókmenntir. Þær
þurfa einnig að finna sér tungumál, umræðuefni, talsmáta, persónugerðir,
umhverfi, skáldskaparaðferðir - frásagnarhátt, myndmál, byggingu. Staða
þeirra er síðan flækt til muna með því að þær þurfa að berjast við tvö
karlveldi: hvítt karlveldi sem kúgar það svarta sem síðan yfirfærir kúgunina
á konurnar og beitir þær sama ofbeldi og það er beitt sjálft.
Bókmenntir eftir svartar konur eru ekki hvað síst leit að sjálfsmynd, að
gildum til að samsama sig við og lifa fyrir í hörðum heimi, sundruðum og
fjandsamlegum. Árangur þeirrar leitar, þ.e.a.s. skáldverkin, skapar svert-
ingjum og ekki síst svörtum konum án efa þær hefðir sem hingað til hefur
skort, í efni jafnt sem formi. Bókmenntir bandarískra blökkukvenna eru
tilraunir þeirra til að lýsa reynslu sinni og svara spurningum um eðli og
inntak hinnar kvenlegu blökkureynslu. I þessum tilgangi verður höfundurinn
að finna og skilja grunnþætti hennar. En um leið og höfundurinn reynir að
finna reynslunni búning verður hann að sneiða hjá búningi sem lýsir annarri
reynslu, vegna þess að gata kvenrithöfunda er, einsog Svava Jakobsdóttir
segir, „margtroðin og lögð af karlmönnum“.1 2 Gata blökkukonunnar sem vill
skrifa er einnig lögð af hvítum konum, og þá einkum úr millistétt, sem búa
þrátt fyrir allt við önnur kjör og aðra menningu, svo að svarta konan er dæmd
til að fara enn meiri einförum en ella.
Bandarísk blökkukona skrifar fyrst og fremst um svertingja og því taka
bæði efni og form (mál og stíll) mið af uppruna hennar og reynslu. Mikil-
vægur liður í þessu er það málsnið sem kallað er svertingjamál eða -mállýska.
Þetta málsnið einkennist meðal annars af úrfellingum, tvöföldum neitunum
1 Auk þessara skáldsagna hafa komið út þýðingar á þremur bindum af sjálfsævisögu
Mayu Angelou: Eg veit afhverju fuglinn í búrinu syngur, Skjaldborg, Rvík 1987,
þýðandi Garðar Baldvinsson; Saman komin í mínu nafni, Skjaldborg, Rvík 1988,
þýðandi Gissur Ó. Erlingsson; Syngjum og dönsum dátt sem um jól, Skjaldborg,
Rvík 1989, þýðandi Gissur Ó. Erlingsson.
2 Svava Jakobsdóttir: „Reynsla og raunveruleiki. Nokkrir þankar kvenrithöfundar.“
Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur, Sögufélag, Rvík 1980, bls. 224.