Skírnir - 01.04.1990, Qupperneq 195
SKÍRNIR
SVART Á HVÍTU
189
hennar inn í hárið og börðu vængjunum. Og ef hún hugsaði eitthvað
var það: Nei. Nei. Neinei. Neineinei. Einfalt. Hún flaug bara. (151)
Textinn ómar af tónlist sem á upphaf sitt í náttúrunni, í flæði vatns og festu
jarðar, í anda þeirrar kenningar franska feministans Héléne Cixous að rit-
háttur kvenna sé flæði sem taki til alls heimsins, blóð og móðurmjólk sem
flæði linnulaust á milli alheimsins og dulvitundar konunnar,4 haf orða sem
streymi án lokatakmarks um veröldina. Myndmál textans er gegnsýrt þessu
flæði þar sem er blóð og vatn úr skauti Sethe, blóð af baki hennar og úr hálsi
Ástkærrar og loks mjólkin sem streymir í sífellu úr brjóstum hennar (og
blandast blóði Ástkærrar í munni Denverar). Flæðið birtist líka í látlausum
og stundum stríðum straumi orða í sögunni en einnig í ást þeirra mæðgna,
Denverar, Ástkærrar og Sethe, á hinu talaða orði, þvx að tala og tala, einsog
Denver segir:
[...] því meira sem hún [Ástkær] tók, því meira talaði Sethe, útskýrði,
lýsti öllu því sem hún hafði mátt þola (221)
Málið er stundum gert ljóðrænt með háttbundinni hrynjandi, stuðlun,
rími og endurtekningum auk þess sem textinn er ríkur að myndmáli og háði.
Þessir ljóðrænu eiginleikar ná hámarki í kveðjukafla Ástkærrar þarsem
textinn er brotinn upp í mislangar línur sem síðan er skeytt saman aftur en
þó þannig að eyða myndast milli setninga í þessu langa ljóði þarsem andlit
Ástkærrar látinnar og Sethe lifandi renna saman, án tengsla við líf eða dauða.
Sethe er andlitið sem yfirgaf mig Sethe sér mig sjá sig og ég sé brosið
brosandi andlit hennar er staðurinn fyrir mig það er andlitið sem
ég glataði hún er andlit mitt sem brosir við mér loksins furðulegt
nú getum við sameinast furðulegt (197)
Sjálft form textans hér að ofan kallar á athygli og miðlar sinni eigin merkingu,
jafnvel óháð merkingu orðanna. Eyðurnar gætu gefið til kynna hvernig Ást-
kær smýgur á milli heims lifenda og dauðra, rennur undan þegar reynt er að
festa á henni hendur en er þó líkamlega til, áþreifanleg. Hljómur orðanna og
samspil þeirra bera einnig í sér merkingu en þetta er reyndar nokkuð rætt
innan verksins, t.d. þegar konurnar hafa breytt Jóhannesarguðspjalli þannig
að hljóðið hefur tekið stað orðsins:
Þær hættu að biðja og tóku skref aftur á bak til upphafsins. í upphafi
voru engin orð. I upphafi var hljóðið, og þær vissu allar hvernig það
hljóð var. (236)
4 Cixous, Héléne: „Laugh of the Medusa", Signs, 1, nr. 4 (sumar) 1976; einnig íNew
French Feminisms, ritstj. Elaine Marks og Isabelle de Courtivron, Harvester,
Brighton 1980. Sbr. einnig Toril Moi: Sexual/Textual Politics: Feminist Literary
Theory, Methuen, London 1985, bls. 112.