Skírnir - 01.04.1990, Qupperneq 200
194
GARÐAR BALDVINSSON
SKÍRNIR
Konurnar á Brewster Place bíða eftir því að lífið verði þeim léttara, að þær
geti hafið sig upp úr eymdinni og gert Brewster Place „að fjarlægri minningu"
(87). Þessi þrá þeirra eftir kraftaverki birtist ekki síst í fantasíum þeirra,
hálfgerðum draumórum sem kippa þeim út úr veruleikanum og fara með þær
í hulda staði sem virðist svipa til huga Guðs þar sem kraftaverkin geta gerst.
Þegar álagið, eymdin og sorgin íþyngja fólki sem mest leysir hugurinn allan
vanda með slíku kraftaverki. Fyrir Ciel, uppeldisdóttur Mattíar, felst
kraftaverkið t.d. í því að komast aftur í móðurskautið og Mattí vaggar henni
að kjarna lífsins: framhjá reynslu móður af barni sínu í gegnum sögu sið-
menningarinnar og aftur að uppsprettu lífsvandans:
[...] alla leið inn í móðurskautið, þar sem þjáning hennar átti upptök
sín, og þar fundu þær hana - silfurglitrandi flís sem stungist hafði rétt
undir húðina. Og Mattí vaggaði henni og kippti í - og flísin losnaði,
en hún var með rætur sem stóðu djúpt og greindust víða, úfna flækju
langra rótarþráða [. . .] (115)
Þótt þýðandinn blási síðari hluta tilvitnunarinnar nokkuð upp má vel sjá að
hin hefðbundna skipting tímans í nútíð, þátíð og framtíð, hefur lítið vægi í
fantasíunni. Hér sést einnig að það er ekki síst móðirin sem skapar manni
heim og örlög, eða öllu heldur sú afdrifaríka reynsla bæði móður og barns að
hún spýtir því inn/út í kaldan hörkuheim. Og það er um þetta sem feminismi
snýst: að koma konunni (aftur) til þess vegs og þeirrar virðingar sem henni
ber en láta karlinn og Guð ekki einoka bæði veginn og virðinguna.
Lokasaga verksins, „Götuhátíðin", lýsir því á táknrænan hátt hvernig
konurnar brjóta múrana, slíta af sér hlekki þeirrar kúgunar sem karlveldið og
menning þess beitir konur. Frelsunin fylgir í kjölfar nauðgunarinnar
svívirðilegu og síðan þess að fórnarlambið drepur eina ástvin sinn; hér er sem
konurnar skírist í regni og blóði, í eins konar syndafalli sem þær síðan stíga
upp úr frjálsar og heilar, líkt og Ciel gerir fyrr í verkinu eftir að hafa horfið
til móðurskautsins.
Eining - jafngildi - þýðing
I grundvallaratriðum má segja að þýðendur hafi um þrjár meginstefnur að
velja við starf sitt: að flytja textann a) orðrétt, samkvæmt nákvæmri merkingu
orðanna, b) lauslega, samkvæmt anda og samhengi textans, og c) með
samblandi af a) og b) eða sitt á hvað. Ákvörðun um það hvaða stefnu
þýðandinn fylgir hlýtur að ráðast mjög af því við hvaða lesanda hann miðar
starf sitt, með tilliti til menntunar og menningarlegs bakgrunns, og hvað hann
álítur minnstu einingu sem vert sé að glíma við í einu, hvort það er eitt orð,
ein setning, heil mynd (röksemd eða röksemdafærsla) eða einn kafli, ef til vill
heil bók. Af þessu má ráða að þýðing er ávallt túlkun og felur í sér eitthvert
huglægt mat þýðandans, þótt táknkerfin jafnt sem textarnir séu e.t.v. hlut-
lægar staðreyndir.