Skírnir - 01.04.1990, Page 206
200
GARÐAR BALDVINSSON
SKÍRNIR
Þótt fyrrnefnt samspil eigi sér ekki beina fyrirmynd í frumtexta þá réttlætir
hann það með því að „sjáöldur“ er hrein orðabókarþýðing á „irises“.
Þýðingin hér er því dæmi um framúrskarandi vinnubrögð þarsem jafngildi
forms og áhrifa er haldið til þeirrar fullnustu sem hægt er að krefjast.
Ný saga
Vinnubrögð þessara þriggja þýðenda eru þó oft önnur þegar koma þarf
nákvæmu myndmáli og hugsun til skila. Stundum rennur hugsunin í
frumtextanum semsé hárbeitt að kjarna einhverrar flækju og þá gerist það
iðulega að þýðingartextarnir sarga sig fram hjá þessum kjarna svo að bæði
merking og mynd frumtextans eru lesanda huldar. Þegar við bætist
tilhneiging þýðendanna til að ofskýra verða þýðingarnar stundum svo ólíkar
frumtextunum að þeir sýnast vart annað en kennileiti á fjallvegum orðanna.
Þannig er eftirfarandi dæmi úr Konunum á Brewster Place þarsem þýðingar-
textinn lítur reyndar ágætlega út áður en hann er borinn saman við frum-
textann. En hin hárnákvæma mynd frumtextans geigar gersamlega í
þýðingunni. Knappt mál, hnitmiðuð mynd og persónugerving lífsins og
tímans gera frumtextann skáldlegan og mjög vandasaman í þýðingu:
[Time] is silent and elusive, refusing
to be dammed and dripped out day
by day; it swirls through the mind
while an entire lifetime can ride like
foam on the deceptive, transparent
waves and get sprayed onto the
consciousness at ragged, unex-
pected intervals. (35)
Tíminn er hljóður og lætur ekki
festa á sér hendur, vill ekki láta
stífla rás sína og leka gegnum stífl-
una dag og dag í senn; hringiða
hans þyrlast gegnum hugann, en
heilu æviskeiði geta gagnsæjar
öldur sem ekki er að treysta fleytt
áfram eins og löðri, þegar þær reisa
faldinn, uns það dreifist inn í
vitundina á stopulum stundum,
þegar minnst vonum varir. (42)
í tengslum við hina miklu umræðu innan verksins um tíma er einmitt
mjög brýnt að halda myndinni af lífinu (æviskeiðinu) sem líður á hvítfextum
öldum tímans inn að flæðarmáli vitundarinnar. En með orðalaginu „vill ekki“
er tíminn hálfvegis gerður að nöldrara sem vill ekki en lætur beygja sig. I
frumtextanum er það tíminn sem rís gegn ríkjandi lögmáli um sjálfan sig og
umturnar hugarstarfsemi manneskjunnar, en í þýðingunni er hann dreginn
í gegnum þetta sama lögmál, uppreisn hans að engu gerð og öðrum látið eftir
að róta upp hugsunum. Þó er jafnvel enn verra að „tímaskynið“ í myndinni
allri brenglast mjög þegar „while“ er þýtt með „en“ - en þessi orð eru
stundum jafngild - því að í stað hinnar beinu skírskotunar frumtextans í
tvenna tíma í senn verða tengslin milli tímans sem þyrlast um hugann og
lífsins sem ríður öldum tímans færð í orsakasamhengi. I stuttu máli mætti því
segja að með því að gera tímann beinlínis karllegan (þ.e. eingöngu línulegan),