Skírnir - 01.04.1990, Page 211
SKÍRNIR
SVART Á HVÍTU
205
afskræmingu eða skopstælingu frumtextans. í eitt af fáum skiptum sem okkur
er t.d. sýnt í hug Hlyns, sonar Mattíar, hljómar þýðingin - og frumtextinn -
einsog hlýlegt hjal þangað til þýðandinn grípur fram fyrir hendur
frumtextans og leggur í texta sinn stríðsmál með stuðlum og harðri hrynjandi
einsog óm af skothríð svo að úr verður ný mynd, ný vitund og þar með ný
merking. Þetta allt er enn bagalegra vegna þess að í tilvitnuðum orðum hér
á eftir er sögumaður sjálfur að leggja út af efni sínu og útskýra sálarlíf Hlyns.
Þýðandinn tekur hér því einnig fram fyrir hendur sögumanns og með því að
skipa sér í stöðu guðs sem með alvaldi sínu og alviti skapar og skilur allan
heiminn skapar hann í raun nýjan heim:
There was a void in his being that
had been padded and cushioned
over the years, and now that
covering had grown impregnable.
(52)
í sál hans var tóm sem fyllt hafði
verið og breitt yfir með ást og
umhyggjn öll þessi ár, og nú voru
varnarveggir þessa vígis veikleikans
orðnir svo þykkir fyrir vikið að
engin leið var að komast í gegnum
þá. (60; leturbr. GB)
Þetta vantraust á lesendum er auðvitað aðeins ein birtingarmynd þeirrar
ofurtrúar sem þýðandinn hefur á sjálfum sér, þ.e. að hann sé þess umkominn
í rauninni að skilja það sem öðrum er hulið og ekki síður að miðla því með
sama árangri og höfundurinn. Með þessu erum við e.t.v. komin að þeirri
stöðu sem þýðandi er í gagnvart lesendum sínum almennt: hann er annars
vegar sjáandi hvað varðar frumtextann en bæði spámaður og ritskýrandi
varðandi þýðinguna. Enda er auðvelt fyrir þýðandann, ekki síst þann sem
aðhyllist áhrifa-jafngildi og „frjálsa" þýðingu, að taka skrefið til fulls og sölsa
undir sig vald höfundarins/guðs: skrifa söguna upp á nýtt.
Á vegum hefðarinnar
í Purpuralitnum er vinátta kvenna og ástir þeirra í millum mikilvægt
umfjöllunarefni því Celie á bæði í nánu vináttusambandi við Nettie systur
sína og í heitþrungnu ástarsambandi við Shug Avery (en það samband er
reyndar hluti af flóknum ástarþríhyrningi með eiginmann Celiear, Hr.____
(Albert), sem þriðja aðila). Þegar ástarsamband þeirra Shug hefst er Celie enn
á því þroskastigi að hafa engar útskýringar á takteinum heldur aðeins skynjun
og myndmál. Fyrsta myndin af kynlífi þeirra er einmitt hefðbundin
Paradísarheimt þarsem sælan (atlot Shug) tekur á sig mynd barnanna sem
Celie ól föður sínum (sem hún uppgötvar síðar að er stjúpfaðir hennar). Barn
á brjósti er e.t.v. sú mynd náinnar snertingar sem vestræn menning leggur
blessun sína helst yfir, en það kann einmitt að eiga drjúgan þátt í því hve vel
þessi mynd kemst til skila í þýðingunni, á lipru máli samfara stuðlum og
háttbundinni hrynjandi: