Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 216
HALLDÓRA JÓNSDÓTTIR
Orðabókmenntir
Sverrir Hólmarsson, Christopher
Sanders, John Tucker
Islensk-ensk orðabók
Iðunn 1989.
Ýmsar gerðir orðabóka
ORÐABÆKUR eru margs konar og má skipta þeim í ótal flokka eftir innihaldi
eða stærð. Séu tekin dæmi um almennar orðabækur og hugað að stærðinni
eingöngu, má tilgreina fjóra flokka: vasaorðabækur (5-15000 uppsláttarorð),
meðalstórar orðabækur eða skólaorðabækur (15-30000 uppsláttarorð), stórar
orðabækur (30-65000 uppsláttarorð) og síðast þær stærstu hérlendis (yfir
65000 uppsláttarorð).
Til fyrsta flokksins mætti telja nýja Dansk-íslenska, íslensk-danska
orðabók.1 Hún er dæmigerð vasaorðabók, þar sem orð er þýtt með orði og
einu upplýsingarnar, sem fram koma eru orðflokkar. Sú bók er reyndar í
stóru broti og villir á sér heimildir en getur t.d. engan veginn nýst í skólum.
Næsta stærð fyrir ofan vasaorðabók er handhæg fyrir skólafólk, sem
leggur stund á erlend tungumál og þarfnast grundvallarupplýsinga í hand-
hægu og auðveldu formi. íslensk-ensk orðabók Iðunnar, er síðar verður vikið
að, tilheyrir þessum flokki. Reyndar er hvergi getið um fjölda uppsláttarorða,
en þau munu vera á bilinu 23-25000.
Stórar orðabækur eiga sér fáa fulltrúa meðal íslenskra orðabóka, en til
þeirra flokkast t.d. Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs.2 Bækur af þeirri
stærð nýtast vel við æðri menntastofnanir og úti í atvinnulífinu, þar sem þörf
er á nákvæmum upplýsingum og greinargóðum skýringum.
Sú íslensk orðabók sem telst til efsta flokksins er Orðabók Sigfúsar
Blöndals, þar sem einungis viðbætirinn frá 1963 telur 40000 uppsláttarorð.
Slíkar bækur eru fræðiverk, þar sem er að finna ómældan fróðleik um
tungumálin.3
Vík ég nú að innihaldi orðabóka og einskorða umfjöllun mína við
tveggjamálaorðabækur.
1 Sigurlín Sveinbjarnardóttir og Svanhildur Edda Þórðardóttir. Dansk-islandsk,
íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík 1989.
2 Sören Sörenson. Ensk-íslensk orðabók. Reykjavík 1984.
3 Sigfús Blöndal. Islensk-dönsk orðabók. Reykjavík 1920-24; Sigfús Blöndal. Islensk-
dönsk orðabók, Viðbœtir. Halldór Halldórsson og Jakob Benediktsson (ritstj.).
Reykjavík 1963.