Skírnir - 01.04.1990, Blaðsíða 218
212
HALLDÓRA JÓNSDÓTTIR
SKÍRNIR
útlendingum við að skilja íslenskan texta. í formála að orðabókinni taka
höfundar reyndar fram að þeir hafi viljað þjóna þessum tveim ólíku
sjónarmiðum og notendahópum. Fljótt kemur í ljós við skoðun á orðabók
hvorum hópnum er meira sinnt, eftir því hvort áherslan er á uppsláttarorðinu
eða þýðingarorðinu. I þessu tilfelli er áherslan öll á uppsláttarorðinu til að
auðvelda enskumælandi fólki málskilning á íslensku. Oft vilja útgefendur,
tilhvattir af markaðslögmálunum, slá saman í eina orðabók þörfum innlendra
og erlendra notenda, og þá þarf bókin að vera blanda af virkri og óvirkri
orðabók. Þetta er reyndin í tveim nýlegum orðabókum, sænsk-íslenskri5 og
norsk-íslenskri6, og gefst vel, þó sérstaklega í þeirri fyrrnefndu. En eftir sem
áður er stærsti hluti útgefinna tveggjamálaorðabóka óvirkar. Umrædd ís-
lensk-ensk orðabók Iðunnar á að ná til beggja hópanna en nýtist Islendingum
því miður lítið, nema e.t.v. þann stutta tíma ævinnar sem þeir skrifa stíla í
skóla.
Ekki er gefinn upp framburður og rýrir það gildi bókarinnar fyrir útlend-
inga en skiptir íslendinga minna máli, því þeir finna enskan framburð í
ýmsum bókum. Fyrir útlendinga er erfiðara að verða sér úti um íslenskan
framburð nema þá af kennslubókum í íslensku, en þessu mætti auðveldlega
bæta inn í næstu útgáfu bókarinnar. Reyndar hefur hingað til ekki þótt miklu
máli skipta að hafa framburð í óvirkum tveggjamálaorðabókum enda var til
skamms tíma lítil áhersla lögð á framburð í málanámi. Og kannanir sýna
raunar að notendur setja framburð seint á óskalista um upplýsingar í tveggja-
málaorðabók.7
Orðaforði í Islensk-enskri orðabók Iðunnar
íslensk-ensk orðabók, sem ætluð er útlendingum, þ.e. óvirk bók, þarf að hafa
orðaforða, sem gera má ráð fyrir að notendur rekist á í íslenskum ritum,
gömlum sem nýjum, bókmenntum sem og öðru. Ef orðabókin er virk þ.e.
ætluð íslendingum, sem vilja nota ensku verða uppsláttarorðin að vera
nútímaleg á kostnað eldri orðaforða, því gera má ráð fyrir að notendur vilji
tjá sinn eiginn veruleika á hinu erlenda máli. Umrædd orðabók hefur nokkuð
góðan orðaforða úr nútímaíslensku, en talsvert ber á orðaforða sem tilheyrir
bókmenntaarfinum en skírskotar ekki til veruleikans í dag, t.d. „manngjöld
- compensation for a mans life“, „dríta (dreit, dritu, dritið) - shit (of birds)“.
„Snæljós" er uppsláttarorð, reyndar ekki skýrt nema í sambandinu „eins og
snæljós - quick as a flash“. Þarna hefði verið nær að sleppa þessu sjaldgæfa
orðasambandi og hafa t.d. „byssubrenndur" sem er mun algengara.
Ymsar upplýsingar, sem gefnar eru í bókinni, henta útlendingum en koma
Islendingum spánskt fyrir sjónir. Þetta á við um íslensk uppsláttarorð sem
5 Gösta Holm og Aðalsteinn Davíðsson (ritstj.). Svensk-islansk ordbok. Sœnsk-
íslensk orðabók. Lund 1982.
6 Hróbjartur Einarsson. Norsk-islandsk ordbok. Norsk-íslensk orðabók. Oslo, 1987.
7 Bo Svensen. Handbok i leksikografi. Stockholm 1987, bls. 14.