Skírnir - 01.04.1990, Page 238
SKÍRNIR
232 DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR
að bregðast ekki við eins og búist er við. Á þennan hátt eru dregnar línur
gegnum réttarhöldin, byggð er upp túlkun sem bæði verður skýrari og
flóknari í þeim fáu köflum bókarinnar sem ekki styðjast beint við heimildir
heldur fela í sér túlkun þeirra og tilgátur um það sem „hefði getað gerst“.
Skýrslusagan er skáldsagnaform sem blandar saman félagsfræði og
sagnfræði annars vegar og fagurbókmenntum hins vegar og það gerir
lesandann óöruggan. Gerðist það sem sagt er frá eða gerðist það ekki? Hvað
er „satt“ og hvað er bara skáldskapur höfundarins? Sagnfræðingurinn túlkar
heimildir sínar, það gerir rithöfundurinn líka. En samkvæmt hefðbundinni
skiptingu á milli skáldskapar, sem er huglægur, og vísinda, sem eru hlutlæg,
eru val og túlkanir rithöfundarins talin meiri tilbúningur en val og túlkanir
sagnfræðingsins. Þessi skilningur er dreginn í efa í öðrum kafla Yfirvaldsins
þar sem sagan, tímahugtakið, er tekið til umræðu.
Það eru ekki til svör við öllum spurningum.
Altént ekki strax.
Sumir draga þá ályktun af þessu að spurningarnar x veröldinni séu
fleiri en svörin í veröldinni.
Það er ranglega ályktað.
Atvikin eru líka sífellt að gefa svör sem engar spurningar eru til við.
Altént ekki strax.
[...]
Hvert svar vekur margar spurningar.
Tíminn er eins og þessi lækur og nútíðin forsenda fyrir réttum
spurningum við svörum fortíðarinnar.
Stundum að minnsta kosti. (21)
Tíminn er á hreyfingu eins og lækur sem stöðugt breytist. Vatnið getur ekki
verið fast í hendi. Það eru fleiri svör í vatninu/tímanum en spurningar. Maður
velur svar og margar spurningar vakna, mörg svör eru í boði, eitt er valið -
en það eru fleiri möguleg. Þannig getur maður aldrei verið viss um að það sé
„rétta“ eða „eina“ sagan sem loks er sögð, maður getur bara vitað að það er
þessi saga sem maður kaus að segja.
Upphafskafli Yfirvaldsins lýsir endi sögunnar sem sögð er í bókinni. Tveir
karlmenn byrja að taka tvíbreiða gröf. Tvo sakamenn á að hálshöggva þennan
dag. Við fáum að vita að það hefur verið framinn glæpur, morð.
Bókin hefst á þessum orðum:
12. janúar, árið 1830.
Morgungráminn verður til við litaskipti landsins og himinsins.
Myrkur jarðarinnar rennur saman við ljósið að ofan. Skýin teygja sig
nær jörðinni og grásvartir fletir skiptast á við svartgráa.(7)
Grámi vetrarmorgunsins er litur kaflans, það er hvorki bjart né dimmt heldur