Skírnir - 01.04.1990, Síða 240
234
DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
eitthvað, eitthvað er ósagt, frásagnar er vant. Þess vegna er þráin eftir frásögn
til staðar. Þráin eftir frásögn er þannig jafnframt þrá okkar eftir merkingu.
Peter Brooks heldur því fram að upphaf allra frásagna feli í sér endi þeirra.
Það sem sagt er frá hefur þegar gerst og það er sama hve mjög höfundar reyna
að halda frásögninni í nútíð, í augnablikinu, frásögnin kemur engu að síður
alltaf á eftir því sem gerðist. Hins vegar myndum við aldrei byrja að lesa
frásögn sem við héldum að væri óendanleg, þvert á móti, við lesum af því að
við vitum að frásögnin endar. Endirinn er það sem gefur frásögninni
merkingu og er tilvistarleg réttlæting hennar.
Leynilögreglusagan er skáldsöguform sem sýnir prýðilega hvernig
endirinn er forsenda upphafsins. Glæpurinn hefur verið framinn. Glæpa-
maðurinn er búinn að leggja til efnið, segja sína sögu, en hún er merkingar-
laus, óskiljanleg, ógnvekjandi í augum okkar. Hlutverk leynilögreglumanns-
ins er að upplýsa hver framdi glæpinn, hvernig - en þó fyrst og fremst: hvers
vegna? Leynilögreglumaðurinn á að segja okkur söguna af glæpnum upp á
nýtt á samhangandi, sannfærandi hátt þannig að við tökum sögu hans gilda
og trúum að þannig hafi þetta allt gerst. Leynilögreglumaðurinn í
skáldsögunni er í svipaðri stöðu og sálgreinandi. Sálgreinandinn þarf að smíða
samfellda og sannfærandi sögu úr sögubrotum, táknum og ráðgátum, eða
m.ö.o. því söguefni sem sá sem er í greiningu leggur fyrir hann.7
Þrá okkar eftir frásögn er óseðjandi, ekkert getur bundið endi á hana
annað en dauðinn, það „augnablik sannleikans“ sem kastar ljósi á allt sem á
undan var gengið og gefur því merkingu. Þráin eftir frásögn er þannig þrá
eftir endinum. Og ef svo er, hvers vegna getum við þá ekki bara sparað okkur
ómakið og drifið okkur beint í sögulokin? Þegar hér er komið sögu er Peter
Brooks farinn að fikra sig yfir í kenningar Sigmund Freuds.
Freud setti fram hina umdeildu kenningu sína um dauðahvötina í
ritgerðinni Handan vellíðunarlögmálsins8, árið 1920. Dauðinn afmarkar tíma
okkar, segir Freud, gefur lífinu merkingu og er markmið þess. En allar lifandi
verur búa yfir hvoru tveggja, dauðahvötinni og andstöðu gegn henni sem
hindrar það að dauðinn komi of snemma:
Þær (þ.e. sjálfsbjargarhvatirnar) tengjast öðrum hvötum og markmið
þeirra er að tryggja að það sem lifir deyi ekki fyrr en að því er komið,
og að hindra að horfið sé aftur til annars konar ólífrænnar tilveru en
fólgin er í lífverunni sjálfri.9
7 Um þetta og fyrirbærið „yfirfærslu" fjallar Peter Brooks í greininni „Psykoanalyse
og historieforteljing", þýð. Einar Vannebo, Norsk litterar arbok, 1989.
8 Sigmund Freud. „Beyond the Pleasure Principle", The Pelican Freud Library, vol.
11, s. 269-339.
9 „They are component instincts whose function it is to assure that the organism shall
follow its own path to death, and to ward off any possible ways of returning to
inorganic existence other than those which are immanent in the organism itself.“,
Sama rit, s. 311.