Skírnir - 01.04.1990, Side 242
236
DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
hans í tíma og rúmi, túlka leit hans að merkingu: frá upphafi, gegnum flækjur
miðjunnar að endanum, sem er dauði sögunnar.
Leitin að merkingunni
Blöndal sýslumaður í Yfirvaldinu hefur vald og rétt til að upplýsa
merkinguna á bak við ránið í Múla. Hann er leynilögreglumaðurinn og á að
finna þjófinn og peninga bónda. Það er Ijóst frá upphafi hver ránsmaðurinn
er. Samt leysist málið meira og meira upp í höndunum á sýslumanni eftir því
sem hann rannsakar það lengur. Ástæðan er fyrst og fremst hinn óáreiðanlegi
og uppreisnargjarni delinkvent, Nathan Ketilsson.
Það kemur nefnilega á daginn að Nathan hefur boðist til að upplýsa málið
áður en það kom í hendur sýslumanni. Tveir leynilögreglumenn eru sem sagt
reiðubúnir að segja söguna um ránið. Annar verður að víkja. Annar verður
að afsala sér valdinu yfir frásögninni, valdinu sem felst í því að ráða gátuna,
raða atburðunum og segja hvað þeir þýddu. Blöndal sýslumanni ofbýður
frekja Nathans og er ekki í vafa um hvor eigi að víkja. En Nathan er jafn
harður á sínu. I glímu þessara tveggja leynilögreglumanna tekst Nathan að
koma hælkrók á sýslumann, fella hann úr stöðu dómara eða höfundar niður
í að vera venjulegt vitni eða sögupersóna.
Nýr leynilögreglumaður er tilkallaður, Jón Espólín, sýslumaður í
Skagafirði. Jón Espólín í Yfirvaldinu hefur til að byrja með engan sérstakan
áhuga á þessu máli sem er troðið upp á hann, en smám saman dregst hann inn
í valdabaráttuna sem á sér stað og samstaða hans með Blöndal, starfs- og
stéttarbróðurnum, er augljós. Það þýðir að hann neyðist til að taka þátt í
vandræðum og vonleysi Blöndals eftir því sem réttarhöldin og málið verður
óskiljanlegra.
Sjálft afbrotið, ránið, hættir að skipta máli. Afbrotamaðurinn hefur aldrei
verið áhugaverður. Það er hinn hrokafulli hentistefnumaður Nathan
Ketilsson sem réttvísin ætlar að koma á kné. En hann smýgur stöðugt úr
greipum þeirra; hann fær skyndileg, tilgerðarleg kvalaköst þegar hann á að
svara mikilvægum spurningum, neitar að segja frá og tekur aftur það sem
hann hefur áður sagt. Og svo segir hann sögur sem koma málinu ekkert við.
Sú versta er þó ekki sögð af honum sjálfum heldur höfð eftir honum af
bónda nokkrum, sem fyrst er kallaður á vettvang undir lok réttarhaldanna.
Það er bóndinn Jóhann frá Holtastöðum sem kallaður er til vitnaleiðslu utan
réttarsalar og þar af leiðandi utan réttarskjalanna. Yfirvöldin nálgast Jóhann
frá Holtastöðum af ýtrustu varkárni. Að gefnu tilefni. Allt sem Jóhann segir
er nefnilega þannig lagað að ómögulegt er að kalla nokkurn til ábyrgðar á því
sem sagt hefur verið eða gert. Jóhann segir frá því sem Nathan sagði um
Blöndal sýslumann, en undirstrikar jafnframt að Nathan hafi verið svo
drukkinn að það hafi hreinlega slegið útí fyrir honum. Nathan geti varla
munað neitt af þessu rausi. Sem betur fer hafi verið annað vitni að „sögu
Nathans“, þ.e. bóndi úr sveitinni, en hann sé því miður nýdáinn. Jóhann
sjálfur man hins vegar allt greinilega.