Skírnir - 01.04.1990, Page 244
238
DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
Múlapeningarnir séu ekki langt undan, kunni jafnvel að tengjast morðmálinu.
Þá kviknar áhugi hans og ferlið hefst. Síðari hluti Yfirvaldsins felur þannig í
sér endurtekningu á því sem gerðist í fyrra málinu.
Endurtekningin.
Búlgarski fræðimaðurinn Tzvetan Todorov segir að ferli skáldsögunnar
byggist á umbreytingum, stöðugt sé teflt saman og byggð upp spenna á milli
mismunar og líkinda. Umbreyting verður þegar þetta tvennt sameinast í nýrri
einingu og verður: „hið sama - en öðruvísi". Þetta er raunar prýðileg lýsing
á eðli myndhverfingar, segir Peter Brooks.11 Við getum líkt einhverju tvennu
við hvort annað, fundið hvað er líkt, en við verðum að halda því aðskildu
samt sem áður, sundurgreina - á því hvíla öll okkar merkingar- og táknkerfi.
Ef líkt og ólíkt verða eitt og „hið sama“ í frásögninni hrynur merking hennar.
Og Brooks tekur ævintýri til dæmis um þetta.
Kóngur nokkur missir drottningu sína. Þegar dóttir þeirra er uppkomin,
finnur kóngur allt í einu upp á því öllum til skelfingar, að vilja giftast
dótturinni af því að hún er sú eina í kóngsríkinu sem er jafn hárprúð og
móðirin hafði verið. Menningin getur ekki leyft að kóngur giftist afkvæmi
sínu, það eru of mikil líkindi (,,over-sameness“). Prinsessan flýr að heiman
í ofboði og eftir margvíslegar þrautir fær hún prinsinn sinn, þau giftast og
verða ný eining „hin sama - en öðruvísi".12
Líkan Todorovs um umbreytingarnar er háð annmörkum formgerðar-
stefnunnar, þ.e. átökin verða kyrrstæð, og hreyfing eða þróun í tíma kemur
ekki nægilega fram. Allar frásagnir nota myndhverfingar til að dýpka það sem
sagt er og vísa út fyrir það en frásögnin er þó mun háðari nafnskiptunum sem
spinna sig ekki bara frá orði til orðs heldur tengja atriði við atriði, segir
Brooks og vísar þar til kenninga Roman Jacobsons um tvær tegundir mál-
myndunar.13
Á milli upphafsins og hins mikilvæga endis, kemur þráin eftir frásögn fram
í samspili myndhverfinga og nafnskipta, endurtekninga, endurskoðunar og
úrvinnslu. Þar gegnir endurtekningin lykilhlutverki ef við ætlum að reyna að
skilja hreyfingu textans.
Endurtekningin er svo mikilvæg í allri bókmenntareynslu okkar, segir
Peter Brooks, að okkur hættir til að líta á hana sem sjálfsagða, hún verður
ósýnileg.14 Taktur, stuðlar og rím byggjast á endurtekningu. Allt sem við
sjáum, heyrum, hugsum (meðvitað eða ómeðvitað) og fær okkur til að tengja
saman staði í textanum, byggist á endurtekningunni, hún er sjálfur burðarás
frásagnarinnar.
11 Sama, s. 91.
12Sama, s. 27.
13 Sama, s.91. Sjá einnig Matthías Viðar Sæmundsson. „Myndir á Sandi“, TMM, 3. h.
1988, s. 338-365.
14 Readingfor the Plot, s. 99.