Skírnir - 01.04.1990, Side 248
242
DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
vöntunin á peningum, örbirgðin, leysir úr læðingi þann sadisma sem gegn-
sýrir samskipti persónanna sem við fylgjumst með í bókinni, frá Yfirvaldinu
niður til neðstu laga samfélagsins og aftur upp til hans.
Fyrsta og eina táknið um virðingu fyrir lífinu er fólgið í lokakaflanum, í
uppreisn Guðmundar Ketilssonar, heljarmennisins sem býðst til að höggva
þau dauðadæmdu. Sextíu ríkisdölum hefur verið úthlutað til verksins og
sýslumaður ætlar að borga kraftlausum ómaga þrjá dali og brennivín fyrir
verkið. Guðmundur Ketilsson vill að þau dauðadæmdu, sem aldrei fengu að
lifa mannsæmandi lífi, fái þó að deyja á mannsæmandi hátt.
Og hver er svo merking alls þessa? Á áttunda áratugnum vorum við ekki
vön að „þrá“ merkingu, við kröfðumst þess að bækur hefðu boðskap fram
að færa. Það hefur Yfirvaldið líka. Eg man ekki hvort ég las Guðmund
Ketilsson sem byltingarsinna, alþýðuhetjuna góðu, árið 1973 (það er eins
líklegt) - en ég man að ég skildi ekki það sem hann segir í síðasta kaflanum.
Tilveran er gengdarlaus sóun, segir hann svo með þunga.
- Ha? segir Yfirvaldið og verður undrandi.
- Við erum öll verkfæri þessarar sóunar, hvert með sínum hætti.
Sóunin er Guði þóknanleg. Það er ábatagirndin sem er fjandsamleg öllu
því sem lífsanda dregur.
Blöndal starir forviða á gest sinn ... (181-182)
Ástæðan fyrir því að Blöndal starir forviða á gest sinn er að þetta hefur verið
sagt við hann áður - í draumi. Rödd sem talar úr dulvitund sýslumannsins
segir við hann: „Tilveran er sóun. Þrotlaus, glaðleg og forsjárlaus sóun“ (119).
Maður getur ekki annað en hugsað til bókartitils Tékkans Milan Kunderas:
Óhærilegur léttleiki tilverunnar - sem tjáir sömu þversögnina og
Guðmundur Ketilsson og Blöndal eru að slást við.
Tilveran er „sóun“ þ.e. ábyrgðarlaus,-gegndarlaus og glöð eyðsla á báða
bóga, eyðsla sem hefur ekkert markmið - né merkingu. Og af því að „sóun-
in“ er hrein andstæða þess að spara, safna og fjárfesta, er hugtakið hlaðið
neikvæðni í menningu okkar. Ást og örlæti eiga ekki upp á pallborðið í
„siðmenntuðu“ samfélagi eins og allir vita.
Tilvistin spyr hins vegar ekki um það, hún er ósiðmenntuð í sjálfri sér og
léttúðug. Maðurinn getur aðeins lifað tilveruna af með ótal málamiðlunum,
en þegar hann er alfarið á valdi málamiðlananna og búinn að gleyma þján-
ingunni, hættir hann að spyrja: hvers vegna? Og hættir að leita að merkingu,
hættir að þrá frásagnir.
Verk Þorgeirs Þorgeirssonar og Peter Brooks eru viðvörun gegn því
síðastnefnda.