Skírnir - 01.04.1990, Page 254
248
NÝ LÆRDÓMSRIT
SKÍRNIR
Manngerðir
Þeófrastos (um 372-287 f.Kr.) var grískur heimspekingur sem stundaði nám
í Akademíu Platóns og var handgenginn Aristótelesi. Hann stofnaði skóla,
Gangaskólann, í Aþenu eftir dauða Aristótelesar og hélt þar uppi öflugu
skólastarfi með um 2000 nemendum. Fátt eitt hefur varðveist af ritum
Þeófrastosar. Manngerðir er lýsing á þrjátíu mismunandi „sérkennum í siðum
manna“ sem ekki geta talist til fyrirmyndar. í örstuttum greinum er útlistað
hvað einkennir ólíkindatólið, smjaðrarann, blaðrarann, óþokkann,
dindilmennið, smásálina og svo framvegis. I hverjum kafla felst skilgreining
á manngerðinni og útlistun á hvernig hægt er að þekkja hana í daglegu lífi.
Textinn er listilega saminn - og fyndinn er hann, ekki síst fyrir þá sök að
hvergi örlar á áfellisdómi, sama á hverju gengur. Lýsingar Þeófrastosar
endurspegla mannlífið nú á tímum ekkert síður en líferni Aþenubúa fyrir
2300 árum og ekki er ólíklegt að lesendur kannist við suma af kauðum
Þeófrastosar úr eigin umhverfi. Þessi bók Þeófrastosar varðveittist með
ævintýralegum hætti fram á seinni aldir og naut slíkra vinsælda á 17. og 18.
öld að upp spratt bókmenntastefna í Englandi og Frakklandi þar sem menn
reyndu að lýsa manngerðum í stíl Þeófrastosar. I bókinni eru breskar
pennateikningar, „lyndislestrarmyndir“, frá 19. öld af manngerðunum.
Henni fylgja í viðaukum „Æviþáttur Þeófrastosar“ eftir Díógenes Laertíos
og skólaþýðing úr Bessastaðaskóla á tíu manngerðum.
Lof heimskunnar
Erasmus frá Rotterdam (1469-1536) var einn merkasti fræðimaður á sinni tíð.
Hann lagði mikið af mörkum á sviði biblíurannsókna, gaf meðal annars út
grískan frumtexta Nýja testamentisins og gerði af honum nákvæmari
latínuþýðingu en áður þekktist. Erasmus gagnrýndi veraldarvafstur Páfastóls
og taldi kirkjuna ekki sinna sínu rétta hlutverki. Hann skrifaðist á við Lúter
um ýmis trúfræðileg efni, en þegar hinn síðarnefndi reis upp gegn Páfa
forðaðist Erasmus lengi vel að taka afstöðu. Svo fór um síðir að Erasmus
varði málstað kaþólsku kirkjunnar og af því spratt fræg ritdeila þeirra Lúters.
Lof heimskunnar er skopádeila þar sem heimskan kveður sér hljóðs og rekur
hvernig mennirnir og jafnvel guðirnir megi þakka henni allt það sem einhvers
er virði. Hún rekur skilmerkilega hvernig hún birtist á öllum sviðum
mannlífsins og útmálar hlutskipti heimskingjanna sem hið vænsta hnoss en
líf vitringanna sem píslargöngu. Eins og nærri má geta ríður heimskan ekki
við einteyming í bókinni en undir býr þó mikilvægur boðskapur um fegurra
mannlíf og andlega spekt sem Erasmus hefur talið að samtímann skorti. Þess
má geta að árið 1988 kom út Lærdómsritið Lof lyginnar eftir Þorleif
Halldórsson sem var samin í upphafi 18. aldar undir áhrifum frá bók
Erasmusar. Lesendur gætu haft gaman af að kynna sér þessar ádeilur saman.
Þorsteinn Hilmarsson