Gerðir kirkjuþings - 01.01.2013, Blaðsíða 38
39
voru hópnum til ráðuneytis. Hópurinn skilaði drögum að skipuriti og samþykktum
Biskupsstofu (kirkjuráðbiskup Íslands) til biskups ásamt lista yfir verkefni Biskupsstofu.
Í samþykktunum er greining á verkefnum kirkjuþings, biskups og kirkjuráðs. Sú greining
er samantekt á lögum, starfsreglum og öðrum heimildum er fjalla um þjóðkirkjuna og
verksvið framangreindra stjórnvalda kirkjunnar. Samkvæmt framangreindri tillögu er
Biskupsstofa skilgreind sem skrifstofa biskups Íslands, kirkjuþings og kirkjuráðs, sem
mynda yfirstjórn þjóðkirkjunnar.
Kirkjuráð samþykkti tillögurnar að skipuritinu og fylgja þær með skýrslu þessari ásamt
samþykktum fyrir Biskupsstofu.
Stofnanir o.fl. verkefni
Stofnanir og nefndir skila skýrslum í Árbók kirkjunnar og er vísað þangað til nánari
greinargerða um starfsemi þeirra. Sú umfjöllun sem hér fer á eftir er til fyllingar því eða
sérstakrar áréttingar á atriðum sem kirkjuráð vill vekja athygli kirkjuþings á. Samkvæmt
11. gr. starfsreglna um kirkjuráð nr. 817/2000, er meginreglan sú að í nefndum sem
kirkjuráð skipar sitji þrír menn og þrír til vara til fjögurra ára og er skipað frá og með 1.
júlí árið eftir kirkjuþingskjör.
Árbók kirkjunnar
Sú breyting verður á að Árbók kirkjunnar verður gefin út rafrænt árlega en prentuð útgáfa
á fjögurra ára fresti þ.e. kjörtímabil kirkjuþings.
Skálholt
Kirkjuráð ber ábyrgð á Skálholtsstað, sbr. lög nr. 32/1963. Skálholtsskóli og Skálholtsstaður
eru rekinn sem ein rekstrareining. Vígslubiskup, sr. Kristján Valur Ingólfsson, fer með
daglega yfirstjórn Skálholts og skrifstofustjóri er Hólmfríður Ingólfsdóttir.
Deiliskipulag Skálholts.
Verið er að vinna deiliskipulag í Skálholti og er það unnið í áföngum. Nú er sérstaklega
unnið að skipulagi í kringum núverandi byggingar í Skálholti, þ.e. dómkirkjuna, skólahúsið
og nánasta umhverfi.
Friðun Skálholtsdómkirkju og Skálholtsskóla.
Mennta og menningarmálaráðherra hefur friðað Skálholtskirkju, Skálholtsskóla og
nánasta umhverfi. Friðunin nær til innra og ytra byrðis Skálholtskirkju, ytra byrðis
Skálholtsskóla auk nánasta umhverfis að undanskilinni yfirbyggingu yfir friðlýstar
fornleifar Þorláksbúðar. Leitað var álits kirkjuráðs á friðunartillögunni og mælti ráðið
gegn henni.
Ábúðarsamningur um Skálholtsjörðina.
Framlengdur hefur verið ábúðarsamningur núverandi ábúenda í Skálholti til tveggja ára,
þ.e. til fardaga á vori 2015.
Miðaldadómkirkja í Skálholti
Kirkjuráð hefur haft til umfjöllunar hugmyndir um smíði miðaldadómkirkju í Skálholti.