Gerðir kirkjuþings - 01.01.2013, Blaðsíða 68
68 69
embættanna og þjónustu kirkjunnar með hliðsjón af umboði nefndarinnar og hlutverki
biskupafundar. Á því stigi lágu ekki fyrir fullmótaðar tillögur til að ræða. Nefndin hafði
áður átt samtal við biskup Íslands um störf nefndarinnar.
Enda þótt nefndin sé skipuð af kirkjuþingi og skili af sér beint til þingsins lítur nefndin
svo á að mikilvægt sé að hafa sem víðtækast samstarf við þá sem hafa beint með skipan
prestsþjónustunnar að gera og það á ótvírætt við um biskup Íslands og biskupafund. Því
telur nefndin rétt að biskup Íslands og biskupafundur fái umsagnir presta og sókna, eins
og minnst er á í tillögum nefndarinnar sem hér eru til umfjöllunar og leggi svo tillögur
fyrir næsta kirkjuþing. Nema kirkjuþing ákveði aðra meðferð þessa máls.
Um presta og um sóknir
Í þjóðkirkjulögunum er að finna lagagreinar sem sérstaklega varðar presta, þar sem finna
má skilgreiningar á stöðu þeirra og hlutverki. Þær helstu eru þessar:
33. gr. Þjónandi prestur þjóðkirkjunnar er hver sá sem á grundvelli köllunar og vígslu gegnir
föstu prestsstarfi í þjóðkirkjunni. Hann lýtur tilsjón kirkjulegra stjórnvalda í kirkjulegum
efnum þótt hann gegni launuðu starfi á vegum aðila sem ekki heyra undir þjóðkirkjuna.
34. gr. Í hverju prestakalli skal vera einn sóknarprestur. Sóknarprestur er hirðir safnaðar og
gegnir prests- og predikunarembætti samkvæmt vígslubréfi og eftir því sem reglur og venjur
segja til um.
35. gr. Í fjölmennum prestaköllum er heimilt að skipa fleiri presta en einn. Séu prestar fleiri
en einn í prestakalli skulu þeir undir forustu sóknarprests skipta með sér störfum í samræmi
við almennar starfsreglur þar að lútandi, sbr. 59. gr.
36. gr. Biskupi Íslands er heimilt að ákveða að í prófastsdæmum starfi héraðsprestar.
Og síðar í þjóðkirkjulögunum segir almennt um presta:
43. gr. Nánari ákvæði um starfsskyldur presta skulu settar í starfsreglur, sbr. 59. gr.
Í Starfsreglum um presta (2011) segir m.a.:
Í 1. gr.: Prestsembættið skiptist í starf sóknarprests, héraðsprests, sérþjónustuprests og prests.
Sú skipting er byggð á lögum og starfsreglum kirkjunnar og varðar starfssvið og ábyrgð
einungis.
Í 2. gr. má lesa um hlutverk presta, en það byggir m.a á vígslubréfi presta:
Samkvæmt köllun, vígsluheiti og vígslubréfi skal sérhver prestur hennar:
-boða Guðs orð í anda evangelísk lúterskrar kirkju
- hafa sakramentin um hönd
- veita sálgæslu og hlýða skriftum og veita leiðsögn í andlegum efnum og trúarlífi
- vera málsvari fátækra, boðberi réttlætis og kærleika Guðs
- fræða unga sem eldri í sannindum fagnaðarerindisins
- ferma, gifta, vitja sjúkra og nauðstaddra, jarðsyngja látna, styðja syrgjendur til huggunar