Gerðir kirkjuþings - 01.01.2013, Blaðsíða 79
79
viðbótarmenntunar og sérþekkingar. Starf sérþjónustupresta er sérstaklega á sviði sálgæslu
við einstaklinga í sérstökum aðstæðum og aðstandendur þeirra. Þeir sinna prestsþjónustu á
stofnunum, svo sem fangelsum, sjúkrahúsum, skólum, dvalar og hjúkrunarheimilum og í
félagasamtökum og fyrir fólk í sérstökum aðstæðum. Nefndin telur starf sérþjónustupresta
mikilvægt og vera einn af vaxtarbroddum hins kirkjulega starfs. Líta má á að það fólk sem
þeir sinna á stofnunum og hjá félagasamtökum sé ígildi sóknar. Landspítalinn er einn
stærsti vinnustaður landsins og bæði sjúklingar og starfsfólk eiga sjúkrahúsprestana að,
svipað og um sóknarprest þeirra væri að ræða.
Starf sérþjónustupresta og staða verður að vera sífellt til endurskoðunar eins og er um
önnur embætti kirkjunnar og ekki verður komist hjá því að líta þess nú hvort ekki megi
skerða þau embætti, einkum vegna erfiðs fjárhags kirkjunnar, fella niður einhver störf eða
minnka starfshlutfallið.
En prestar starfa víða og þiggja laun sín af stofnunum sem þeir vinna hjá (sjá Árbók
kirkjunnar 2012). Umboð nefndarinnar nær þó ekki til þeirra presta. Nefndin telur sig
ekki heldur geta fjallað um djákna í þessu samhengi (sjá Árbók kirkjunnar) þótt vissulega
geti djáknar gengið inn í sumt af því sem fellur undir skyldur presta vítt og breitt um
landið, eins og fræðslustarf og umönnun. Djáknar leiða einnig helgistundir svo sem á
hjúkrunarheimilum og gætu veitt dýrmætan stuðning í sóknum landsins við helgihald,
þar sem því verður ekki komið við að kalla til prest.
Viðmið nefndarinnar er eins og áður segir það að messuskyldur á hvert embætti skuli vera
sem næst 36 messum á ári. Samkvæmt tölum frá sóknarprestum á árinu 2012 voru messur
alls 3860 á árinu í sóknum landsins. Það þýðir að til þess að uppfylla messuskyldurnar
þurfi stöðugildi presta í sóknunum og á samstarfssvæðunum að vera um 107.
Þörfinni er því vel mætt með því að hafa í dag 119,5 stöðugildi sóknarpresta, presta og
héraðspresta, en þá er ekki litið til annarra þátta sem hafa áhrif á skipan prestsþjónustunnar.
En aðstæður gera það að verkum að ekki er rétt að hafa þetta viðmið eitt og sér, heldur
þarf að meta hvert svæði fyrir sig. Þetta gerði þjónustunefndin (2010) og komst að
þeirri niðurstöðu þá að sóknarprestar og prestar þyrftu að vera í 116 stöðugildum, auk
héraðspresta í 8,5 stöðum eða alls 124,5 stöðugildi. (Sjá fylgiskjal með 7. máli kirkjuþings
2010).
Þegar skoðuð er dreifing þessara 112,5 stöðugilda í dag, þ.e. sóknarpresta og presta (í
okt. 2013) sést að ekki er fylgni milli íbúafjölda (eða fjölda þjóðkirkjufólks) og stöðugilda
presta.
(Sjá töflu hér að neðan eða fylgiskjal F þar sem tillaga um skiptingu er einnig að finna)