Gerðir kirkjuþings - 01.01.2013, Blaðsíða 11
11
okkar frá boðskap um kristni og kærleika – enda hlýtur skólastarf nútímans að eiga að
einkennast af fjölbreytni, vali og trú á því að einstaklingarnir sjálfir fái með fræðslu og
upplýsingu tækifæri til að móta sínar lífsskoðanir, trú og sannfæringu.
Það er oft talað um að eiga sér barnatrú. Sú trú er að mínu mati mikilvægari en flest annað.
Þannig má aldrei vanmeta þær minningar og tilfinningarnar sem tengjast því að eiga trú
sem barn og eiga að fylgja okkur alla ævi. Kærleikurinn er kjarninn í kristinni trú og með
kærleikann að leiðarljósi stígum við mörg skref í átt að betra samfélagi.
Kæru þingfulltrúar.
Mig langar að nota þetta tækifæri til að segja ykkur örstutt frá því þegar ég sem ung kona
átti þess kost, ásamt vinahópi mínum, að eiga stund með sr. Sigurbirni Einarssyni biskup
og ræða við hann um sýn hans og sjónarmið. Ég hafði auðvitað alist upp við það sem barn
að hlýða með athygli á orð hans, ljóð og ræður og á okkur krakkana var iðullega sussað
þegar Sigurbjörn talaði til þjóðarinnar í gegnum útvarp eða sjónvarp þess tíma.
Í Skálholti fyrir um það bil 15 árum nutum við nokkur þess að eiga við hann upplýsandi
samtal. Hann kom til fundar við okkur ásamt eiginkonu sinni og gaf sér góðan tíma til að
ræða málin. Ein úr hópnum spurði í lokin hvort hann gæti í stuttu máli sagt okkur hvað
Guð væri fyrir honum. Hann svaraði að bragði: Guð er allt hið góða sem birtist í gjörðum
Jesú Krists. Svo einfalt og svo skýrt. Þessi kjarnyrta lýsing hans hafði áhrif á okkur öll og
þegar við hjónin eignuðumst yngri dóttur okkar færði þessi vinkona okkur sérhannað
koddaver þar sem þessi orð sr. Sigurbjörns voru letruð á.
Þessi stutta tilvitnun segir svo margt. Ég hjó sérstaklega eftir því að hann talaði um gjörðir
frelsarans en ekki orð. Það færir okkur aftur að umræðunni um kærleikann og setur
um leið ákveðna ábyrgð á herðar okkar sem okkur er ætlað að axla. Líf okkar á að vera
vitnisburður um kærleika. Að við sýnum góðvild og kærleika í verki.
Það er á þessum grunni sem við treystum kirkjunni fyrir okkar stærstu stundum í lífinu.
Ég þarf auðvitað ekki að segja ykkur að kirkjustarf snýst ekki um hús eða byggingar, heldur
fólkið sem hana sækir. Á þeim grundvelli þarf kirkjan að verða aukinn hluti af okkar daglega
lífi, og þá ekki bara á stóru stundunum. Kirkjan á Íslandi hefur stigið stór skref í því að
bjóða alla velkomna og þannig sett kærleikann í öndvegi. Hún hefur mikilvægu hlutverki
að gegna í samfélaginu og mig langar til að biðja ykkur sem hér sitjið um að gleyma því
aldrei. Ég veit að reglulega hittast leiðtogar kristinna trúfélaga á Íslandi til að biðja fyrir
landi og þjóð og af því er gott að vita. Það gefur okkur sem störfum í stjórnmálum aukinn
styrk en umfram allt þá gefur það þjóðinni einnig aukinn styrk.
Kæru þingfulltrúar.
Undanfarið hafa komið til mín mætir einstaklingar, bæði frá kirkjunni og einstaka
sóknum, til að ræða um sóknargjöldin og gert mér rækilega grein fyrir skerðingum á
þeim umfram aðrar stofnanir. Þessi ríkisstjórn ber ekki ábyrgð á þeim aðgerðum – því
ójafnræði í niðurskurði – en það er engu að síður vilji minn að nota komandi misseri til
að ná sátt við þjóðkirkjuna og önnur trúfélög um þau mál.