Gerðir kirkjuþings - 01.01.2013, Blaðsíða 70
70 71
Messuskyldur og messuhald.
Hugmyndir nefndarinnar hafa því að miklu leyti snúist um þau meginstef sem eru að
finna í samþykktinni frá 2010 um Þjónustu kirkjunnar. Þar skal nefna skilgreiningu á
grunnþjónustu kirkjunnar, messuskyldur og samstarfssvæði. Nefndin einskorðaði sig að
mestu við messuskyldurnar þegar hún lagði mat á stöðu embættanna til að sinna þeim
skyldum og það á samstarfssvæðum.
Viðmið það sem þá var lagt til grundvallar var mikið til umfjöllunar þar sem ljóst er að
fækka verður prestsembættum vegna fjárhagsstöðu kirkjunnar. Það er því rétt að endurmeta
þessar skyldur og það hefur nefndin gert. Fullt tillit var tekið til messuskýrslna presta fyrir
árið 2012 og sú viðmiðun hafði áhrif á tillögurnar um fjölda embætta á svæðunum.
Í Samþykktum um innri málefni kirkjunnar (2009), er einnig getið um messuskyldur
sóknanna, en þar eru gerðar heldur minni kröfur til fámennustu sóknanna, en þær sem
settar voru fram í stefnumótuninni um Þjónustu kirkjunnar (2010). Hafa verður í huga að
á báðum stöðum er gert ráð fyrir að hér séu um viðmið að ræða og að heimamenn finni
hvað best eigi við á hverjum stað. Engu að síður er með messuskyldum lagt til að festa í
sessi þá meginskyldu sóknarinnar að söfnuðurinn komi saman til helgihalds og tilbeiðslu.
Messan er helsta einkenni hins kirkjulega starfs og það hlutverk sem sýnir fyrir hvað hin
kristna kirkja stendur, – að biðja saman, að syngja saman, að hlýða saman á orðið, að
brjóta saman brauðið, að lofsyngja Guð og vegsama hann. Í Samþykktum um innri málefni
segir m.a. um helgihaldið:
„Messan er hjartsláttur trúarlífsins þar sem söfnuðurinn mætir Drottni í orði og sakramentum.
Í messunni fær trúin næringu til vaxtar og þroska fyrir boðun fagnaðarerindisins, samneyti
heilagrar kvöldmáltíðar altarisins og samfélagið í bæn og beiðni og þakkargjörð. Frá
messunni er söfnuður Krists sendur út með blessun hans“.
Í því skýrslukerfi sem nú er við lýði og prestar eiga að fylla út um starfið og messurnar, má
lesa mikilvægar upplýsingar um kirkjulegt starf eins og það birtist í tölum frá söfnuðum
um land allt. Til þess að meta þróunina og stöðu kirkjunnar, hvað þetta varðar, þarf einnig
að vinna úr þeim tölum eins og hér er gert. Leggja þarf áherslu á að prófastar gangi eftir
því að skýrslur berist reglulega til biskups Íslands er varpi ljósi á starf kirkjunnar og veiti
þannig gagnlegar upplýsingar um stöðu þjónustu kirkjunnar hverju sinni.
Nefndin kaus að draga að þessu sinni eingöngu fram úr skýrslunum messufjölda í sóknunum
og fjölda fermingarbarna. Kannað var hvernig messuhald væri í raun í sóknum landsins
og skoðaði sérstaklega messuskýrslur fyrir árið 2012. Nefndin fékk leyfi biskups til að leita
eftir hjá þeim prestum sem ekki höfðu skilað fullnægjandi skýrslum tölum frá þeim. Það
var gert með því að hringja í þá sérstaklega og tók símavarsla Biskupsstofu að sér það verk.
Hér má sjá í töflunni samantekt á messufjölda 2012.