Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Page 155
eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, suma hafa menn gert vanhæfa,
sumir hafa sjálfir gert sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli sem höndlað
fær.“ (v. 11-12)
Þessi ummæli Jesú hafa löngum þótt torræð.9 Þau eru sett fram í fram-
haldi af umræðu um skilnaði og því er algengt að tengja þau framkomu
maka í garð hvors annars í hjónabandi. Ein hugsanleg túlkun er sú að það að
lifa í hjónabandi samkvæmt strangasta viðmiði Jesú merki að lifa án kynlífs,
eins og geldingur, vegna guðsríkisins.10 Innan fjölmargra eldri kristinna
hefða voru þessi orð þó ekki túlkuð á þennan hátt. í stað þess að skilja orð
Jesú á þá leið að þau fjölluðu um framkomu maka í garð hvors annars í
hjónabandinu, var litið svo á að Jesús boðaði algera höfnun hjónabandsins
vegna guðsríkisins. Jesús var sem sagt álitinn boða einlífi eða skírlífi með
ofangreindum orðum og sumir gengu svo langt í túlkun sinni að telja að
Jesús boðaði að sá sem fylgdi sér ætti hreinlega að gelda sjálfan sig.11
Lítum á annað dæmi sem tengja má hugsjónum um líf í eftirfylgd við
Jesú og tengist svipuðu stefi. I 12. kafla Matteusarguðspjalls er Jesú sagt frá
því að móðir hans og bræður bíði eftir honum úti og vilji ná tali af honum.
Svar Jesú er eftirfarandi: „Hver er móðir mín og hverjir eru bræðir mínir?“
(v. 48) I framhaldi af þessum orðum bendir hann á lærisveinana og segir:
„Hér er móðir mín og bræður mínir. Hver sem gerir vilja föður míns sem
er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir.“ (v. 49-50) Sama saga er
sögð í 3. kafla Markúsarguðspjalls og einnig í 8. kafla Lúkasarguðspjalls.
Á öðrum stað í Matteusarguðspjalli boðar Jesús að sönn eftirfylgd krefjist
þess að maður rísi gegn líffræðilegri fjölskyldu sinni og jafnvel að rétt sé að
yfirgefa hana (Matt 10.21, 34-37). I Lúkasarguðspjalli gengur eftirfylgdin
við Krist gegn skyldunum við fjölskylduna. í því tilviki er fjallað um mann
nokkurn sem vildi fá að fylgja föður sínum til grafar áður en hann slægist
í þann hóp sem fylgdi Jesú. Jesús segir af því tilefni: „Lát hina dauðu jarða
9 Þetta er eini staðurinn í Nýja testamentinu þar sem þetta efni ber á góma. íslenska þýðingin hefur
breyst í tímans rás en í eldri biblíuþýðingum var talað um geldinga og að vana eða gelda sig. f síðari
biblíuþýðingum er hugtakið geldingur horfið og í staðinn talað um þá sem eru vanhæfir til hjúskapar.
Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á stöðu geldinga á tímum frumkristni en hér er þó ekki unnt
að gera grein fýrir þeim rannsóknum. Sjá Clarence Glad, „Matteusarguðspjall 19.3-15. Áherslur og
samhengi. Fjölskyldan, hjónaband, einlífi og skírlífi í frumkristni“, apríl 2006, sótt 14. júní 2012
af: http://www2.kirkjan.is/skjol/samkynhneigdogkirkja/clarence-glad-matteusargudspjall-19-3-15.
pdf
10 Mark D. Jordan, The Ethics ofSex, Oxford: Blackwell, 2002, bls. 48.
11 Sama rit, sami staður. Mark Jordan vísar hér sérstaklega til túlkunar trúvarnarmannsins Origenesar
(um 185 -250).
153
L