Orð og tunga - 01.06.1988, Blaðsíða 36
24
Orð og tunga
en kemur ekki fyrir í nema 38 textum af 50. Þessi orðmynd er því töluvert algeng
þótt hún komi ekki fyrir í mörgum textum og gildir það sennilega um allt fornafn
2. persónu að það er mjög algengt í þeim textum sem það kemur fyrir í. Þá er
orðmyndin sagði í 73. sæti hjá þeim Eiríki og Vilhjálmi en kemur samt ekki fyrir
í nema 10 textum af 50. Hinar orðmyndirnar eru síðan neðar í röðinni: einnig í
87. sæti, okkur í 99. sæti og grein í 278. sæti. Að vísu gæti sú síðastnefnda átt
heima töluvert ofar í röðinni ef skammstöfunin gr væri talin með. Þessar þrjár
orðmyndir koma allar fyrir í langflestum textunum hjá þeim Eiríki og Vilhjálmi.
En hversu áreiðanlega mynd sýnir tafla 11 af algengustu orðmyndunum í
íslensku ritmáli? Til að reyna að svara því eru niðurstöður fjögurra tíðnikann-
ana um algengustu orðmyndirnar bornar saman í töflu 12. Þar er að finna 25
algengustu orðmyndirnar úr fjórum tíðnikönnunum. Fyrst koma 25 algengustu
orðmyndir tíðnikönnunar OH en síðan þær orðmyndir sem eru meðal 25 algeng-
ustu orðmynda í einhverri hinna kannananna en ekki í könnun OH. Orðmynd-
unum er raðað eftir tíðniröð í könnun OH. Tölurnar úr Hreiðrinu og könnun
Ársæls Sigurðssonar eru fengnar úr 1. töflu greinargerðar þeirra Baldurs, Björns
og Svens (1980:70-73). I þeirri töflu er niðurstöðum Ársæls breytt á þann hátt að
orðasamböndin eins og, því að, svo að, einu sinni og þó að, sem Ársæll taldi sem
eina orðmynd hvert, eru talin sem tvær orðmyndir á sama hátt og í Hreiðrinu.
Sem fyrr fá orðmyndir með sömu tíðni sama tíðniraðarnúmer.
Ekki verður annað sagt en að könnununum fjórum beri nokkuð vel saman
um það hverjar séu 25 algengustu orðmyndir í íslensku ritmáli þótt tíðniröð
orðmyndanna sé dálítið mismunandi. Athygli vekur hversu vel niðurstöðum úr
tíðnikönnun OH ber saman við niðurstöður þeirra Eiríks og Vilhjálms og einnig
hversu tíðniröð orðmynda í Hreiðrinu er frábrugðin hinum. Til dæmis hafa
orðmyndirnar er og eru óvenjulága tíðni í Hreiðrinu. Á það ber hins vegar
að líta að við svona frávikum má alltaf búast þegar aðeins einn texti liggur
til grundvallar tíðnikönnun. Hver skýringin er á lágri tíðni þessara orðmynda
sagnarinnar vera í Hreiðrinu er hins vegar ekki gott að segja. Einnig mætti benda
á óvenjulega háa tíðni orðmyndarinnar ég bæði í Hreiðrinu og í könnun Ársæls
Sigurðssonar. Þetta ræðst auðvitað af því að frásögnin í Hreiðrinu er í 1. persónu
og líklegast er að sú frásagnaraðferð sé einnig ríkjandi í tveimur efnisflokkum
Ársæls, stílum barna og sendibréfum fullorðinna sem mynda tæplega helming
alls lesmáls sem Ársæll kannaði. Þá er athyglisvert að og skuli vera algengara
en að hjá Ársæli Sigurðssyni. Af 25 algengustu orðmyndunum í könnun OH er
aðeins ein sem er grunsamlega ofarlega í röðinni, frá, sem er sú 24. algengasta í
könnun OH en mun neðar í tíðniröðinni í hinum könnununum þremur. Ástæðan
er sú að frá kemur mjög oft fyrir í einum texta, eða 71 sinni, en meðaltíðni
þessarar orðmyndar í hinum textunum 10 er 15,30. Líklegt er því að hinar
kannanirnar gefi réttari mynd af tíðni þessarar orðmyndar. Það á einnig við um
orðmyndina svo sem er meðal 25 algengustu orðmyndanna í hinum könnununum
þremur en er 31. algengasta orðmyndin í tíðnikönnun OH.
Hér verður staðar numið í umfjöllun um heildarniðurstöður könnunarinnar
þótt þar sé af ýmsu fleira að taka en liér hefur verið nefnt. Verður nú vikið að
niðurstöðum um tíðni einstakra orðflokka og málfræðiatriða en þar er að finna
nýstárlegustu niðurstöður þessarar könnunar.