Orð og tunga - 01.06.1988, Blaðsíða 139
Jón Hilmar Jónsson: Sagnorðagreining Orðabókar Háskólans
127
3 Einkenni einstakra safna
3.1 Einkenni Ritmálssafnsins
Eins og fyrr segir er Ritmálssafnið afrakstur orðtöku úr rituðum (mest prent-
uðum) heimildum. Allur þorri orðaseðlanna á það sameiginlegt að þar birtist í
tjáningarsambengi notkun þess orðs eða orðasambands sem orðtökumaður beinir
sjónum sínum að. Frá þessu eru að vísu undantekningar, t.a.m. þar sem beinlínis
er verið að skýra notkun eða merkingu þess orðs sem í hlut á eða tilgreina ís-
lenskt orð sem merkingarlega hliðstæðu við erlent orð. En í langflestum tilvikum
er um að ræða eiginleg notkunardæmi, bundin ákveðnum ritunartíma og mótuð
af ákveðnum höfundi þótt nafn höfundarins sé ekki alltaf þekkt. Tjáningaxsam-
hengið gerir það að verkum að notkun orðsins fellur inn í setningarlega umgjörð
og, ef um beygjanleg orð er að ræða, er bundin tiltekinni beygingarmynd hverju
sinni. Merkingin er sjaldnast látin uppi beint, heldur verður oftast að ráða hana
af því samhengi sem fram kemur í textanum. Þannig má segja að hvert og eitt
notkunardæmi staðfesti og birti tiltekið afbrigði í heilu notkunarmynstri, hvort
sem htið er til beygingar, setningargerðar eða merkingar. Sé litið til sagnorða
má t.d. hugsa sér að hópur notkunardæma tiltekinnar sagnar eigi það sameig-
inlegt að birta fallstjórn af ákveðinni gerð, boðháttur komi fram í tilteknum
dæmahópi, tiltekinn hópur staðfesti ákveðna merkingu o.s.frv. Full yfirsýn yfir
einstök notkunarmynstur byggist því á fjölþættri og skipulegri greiningu allra
notkunardæmanna.
3.2 Einkenni Talmálssafnsins og annarra sérsafna
Efnið í sérsöfnum Orðabókarinnar hefur í mikilvægum atriðum önnur einkenni
en það efni sem Ritmálssafnið hefur að geyma. Segja má að efni sérsafnanna liggi
nær eiginlegum orðabókartexta, sé að meira eða minna leyti unninn efniviður,
gagnstætt hinu dæmigerða ritmálsefni sem með sömu líkingu má líta á sem til-
tölulega óunnið hráefni. Munurinn birtist í því að á orðaseðlum sérsafhanna er
að jafnaði ekki verið að sýna notkun orðsins sem í hlut á í tjáningarsamhengi,
heldur kemur þar fram umsögn um notkunina, hvort sem hún er færð í búning
eiginlegrar orðabókarskýringar eða stendur sem persónubundin umsögn tiltekins
heimildarmanns. Þar með er síður hægt að festa hendur á þeim notkunarþáttum
sem ákvarðast af tjáningarsamhengi, svo sem beygingarmynd. Gildi þáttanna
ritunartími og höfundur er einnig annað og óáþreifanlegra en þegar um ritmáls-
dæmi er að ræða. Öðru máli gegnir um merkingarþáttinn. Yfirleitt er merkingin
þungamiðjan í þeirri umsögn sem fram kemur á orðaseðlum sérsafnanna svo að
þar má jafnvel ganga að meira eða minna fullbúnum merkingarskýringum. Að
öðru leyti snúast umsagnir sérsafnanna, einkum Talmálssafnsins, mjög um ýmis
menningarsöguleg atriði, svo sem þjóðhætti, vinnubrögð, þjóðtrú o.s.frv.
3.3 Margbreytilegt gildi dæma og umsagna
Þegar htið er til þess munar sem hér var lýst á Ritmálssafninu annars vegar
og sérsöfnunum hins vegar vaknar sú spurning hvort hægt sé að koma við svo