Orð og tunga - 01.06.1988, Blaðsíða 130
118
Orð og tunga
auðugan gaxð að gresja“. Síðan bætir hann þessum orðum við: „Það hlýtur
að verða keppikefli Islendinga að vinna að þessum rannsóknum í framtíðinni og
láta semja vísindalega orðabók íslenzkrar tungu, sem lengi hefur verið ráðgerð.“
Þessu næst rekur Alexander þau fræðilegu atriði, sem hann álítur einkum þörf á
að rannsaka. Þar kemur skýrt í ljós viðhorf hans til allra þátta íslenskrar tungu,
en þeir eru sex, sem hann minnist sérstaklega á.
Þegar hefur verið vikið að fyrsta þættinum, þ.e. rannsókn orðaforðans. Þá
nefnir hann rannsókn talshátta og orðatiltækja, „sem oft eru höfð á hraðbergi
án þess að mönnum sé kunnugt um uppruna þeirra eða eiginlega merking“. Þá
segir hann, að „rannsókn þýðingarbrigða eða merkingarbreytinga orða í íslenzku
máli“ sé „allmerkilegt mál og lítt rannsakað“. Um það fórust honum orð á þessa
leið:
Orðin breyta um merkingar, tengjast öðrum hugmyndum en áður, en
stundum haldast einnig eldri merkingar samhliða þeim nýju, og geta
þá sum orð orðið tvíræð eða margræð. Stundum rekur hver breyting
aðra, og getur orðið að lokum fengið mjög fjarskylda merking eða
jafnvel gagnstæða frummerking sinni.
í því sambandi vitnar hann til orða dr. Björns frá Viðfirði í Tímariti Verkfræð-
ingafélags Islands 1918.
Þessu næst kemur Alexander enn að íslenskri tungu og segir orðrétt:
Þá er enn eftir að rita ítarlega sögu málsins um 500 ára skeið, og
fer nú að verða tími til þess kominn, er lokið hefur verið við útgáfu
rímnasafns miðaldanna og fornbréfasafns.
Þá bendir Alexander á, að öll örnefni á íslandi séu ókönnuð. „Nákvæm rannsókn
á þessu sviði myndi ekki aðeins hafa verulegt málfræðigildi,“ segir hann, „heldur
varpa einnig ljósi á menning þjóðarinnar á liðnum öldum.“ Að lokum drepur
hann á, að íslensk bragfræði sé að mörgu leyti ókönnuð, „en hún stendur í nánu
sambandi við allar málsrannsóknir“.
I ræðu sinni vék hann síðan sérstaklega að nýyrðasmíð og segir, að Fjöln-
ismenn hafi bent á leið, „hversu skapa skyldi ný orð í málinu“. Orðrétt segir
hann enn fremur: „Flóðöldur erlendrar menningar velta nú yfir land vort, og
nauðsyn hefir orðið að skapa nýyrði á ýmsum sviðum vísindanna.“ Hér minnist
hann aftur á dr. Björn frá Viðfirði, sem flutti erindi um nýyrði á fundi Verkfræð-
ingafélags Islands og eigi það „vart sinn líka vegna snilldarlegrar framsetningar
og heilbrigðra skoðana“.
Þessi setningarræða Alexanders Jóhannessonar prófessors lýsir mjög vel af-
stöðu hans til íslenskrar tungu og íslenskrar menningar yfirleitt. Honum var
líka vel ljóst, hversu snar þáttur varðveisla móðurmálsins er fyrir framtíð þeirrar
þjóðar, sem byggt hefur ísland í rúmar ellefu aldir.
Aratugurinn milli 1930-1940 var enginn glæsitími í sögu íslenskrar þjóðar
fremur en margra annarra í heiminum. Heimskreppan mikla skall á um 1930, og
þeir, sem nú eru komnir yfir miðjan aldur, muna vel þá tíma og þann kyrking,