Orð og tunga - 01.06.1988, Blaðsíða 132
120
Orð og tunga
Sumarið og haustið var svo notað til þess að skyggnast eftir „hæfum manni“,
svo sem kveðið var á um í fyrrgreindri ályktun. Urðu kennarar heimspekideildar
sammála um að mæla með Magnúsi Kjartanssyni, en hann var þá við nám í nor-
rænu við Hafnarháskóla. Hygg ég, að þeir Sigurður Nordal og Björn Guðfinnsson
hafi átt drýgstan þátt í þeirri ákvörðun. Á fundi háskólaráðs 26. nóv. 1943 var
gerð svofelld bókun: „Háskólaráð samþykkir að ráða Magnús Kjartansson stud.
mag. til þess að búa sig undir orðabókarstarfsemi í Svíþjóð ... “ Jafnframt skyldi
hann fá laun af fé því, sem veitt var til orðabókarinnar, meðan hann dveldist í
Svíþjóð. Atvikin höguðu því hins vegar svo, að Magnús kom aldrei til starfa við
Orðabók Háskólans. Um þetta leyti var síðari heimsstyrjöldin í algleymingi og
nánast ekkert samband milli Islands og Norðurlanda. Magnús sat þess vegna
fastur ytra og hefur vafalítið ekki getað haft nema mjög takmarkað samband við
þá menn, sem fjölluðu um orðabókarmálið hér heima.
Sjálfsagt hefur Alexander og þeim öðrum, sem beittu sér fyrir orðabókarmál-
inu, þótt slæmt að geta ekki hafið störf við væntanlega orðabók fyrr en að loknu
stríði, ekki síst þar sem fjárveiting var fengin til starfsins. Á fundi í háskólaráði
29. sept. 1944 var samþykkt „að verja megi í vetur allt að 8000 kr. af fé því,
sem veitt var úr Sáttmálasjóði 1943 ... til undirbúnings íslenzkri orðabók, til
þess að greiða cand. mag. Árna Kristjánssyni fyrir vinnu við að orðtaka rit eftir
fyrirmælum kennaranna í íslenzkum fræðum“. Við Árni vorum samkennarar við
Kvennaskólann í Reykjavík á þessum árum, og mér er kunnugt um það, að hann
hóf orðtöku rita þegar þennan vetur í samvinnu við kennara heimspekideildar.
Á fundi háskólaráðs 19. okt. 1945 var svo gerð samþykkt, þar sem þeim
tilmælum var beint „til heimspekisdeildar, að hún geri sem fyrst tillögur um yfir-
stjórn og starfstilhögun við söfnun til íslenzkrar orðabókar“. Ljóst er af þessari
samþykkt, að nú var orðabók yfir íslenskt mál frá 1540 að komast á fastan fót með
sérstakri stjórn, sem átti að leggja á ráðin um alla framkvæmd og fylgjast með
verkinu. Samt leið tæpt ár, þar til slík yfirstjórn var skipuð. Á fundi í háskólaráði
24. sept. 1946 voru samkv. tillögum heimspekideildar „prófessorarnir Alexander
Jóhannesson, Einar Ól. Sveinsson og Þorkell Jóhannesson kosnir í nefnd til þess
að hafa yfirstjórn á orðabókarstarfinu. Kosningin er til 3 ára“.
Með skipun sérstakrar yfirstjórnar, má segja, að kjölurinn hafi verið lagður
að þeirri orðabókarsmíð, sem síðan hefur óslitið verið unnið að. Eins og sést
af nefndarskipaninni voru hér kjörnir fulltrúar þeirra greina, sem mynduðu þá
kennslugrein, sem kölluð var íslensk fræði, en sú grein tók til málfræði, íslenskra
bókmennta og íslenskrar sögu. Ekki var óeðlilegt, að fulltrúi málfræðinnar, Alex-
ander Jóhannesson, yrði formaður nefndarinnar, enda auk þess aðalhvatamaður
orðabókarmálsins. Hófst hann þegar handa um að fá styrk af fjárlögum til orða-
bókarverksins. Sést það á því, að á fundi háskólaráðs 9. des. 1946 lá fyrir erindi,
sem fjárveitinganefnd Alþingis sendi ráðinu, en í því er farið fram á, „að veitt sé
á fjárlögum fé til íslenzkrar orðabókar“. „Óskar nefndin álits háskólaráðs á mál-
inu,“ eins og í fundargerð segir. Þar kemur og fram, að háskólarektor lagði fram
uppkast að svari nefndarinnar, sem var samþykkt. Ekki verður af fundargerð
séð, hvert efni þess var, en vafalaust liefur liáskólaráð mælt með fjárveitingu til
orðabókarinnar.
Með skipun orðabókarnefndar, má segja, að orðabókarmálið væri komið í