Orð og tunga - 01.06.1988, Blaðsíða 102
90 Orð og tunga
6.3 Frumtextinn—þýðingartextinn
6.3.1 Formlegt frjálsræði
Fræðimenn og aðrir sem fjalla um þýðingar koma alltaf fyrr eða síðar að því
sem á íslensku hefur verið kallað jafngildi í þýðingum.7 Þetta er sú viðleitni
þýðandans að koma boðum frumtextans sem best til skila á öðru tungumáli.
Það er auðvitað markmiðið með þýðingum yfirleitt. En um leiðina að þessu
markmiði, sjálfa aðferðina eða viðhorfið, eru ekki allir sammála. Á að keppa að
sem mestum trúnaði við frumtextann eða aðlaga þýðinguna sem best að hefðum
og viðmiðunum í viðtökumálinu? (Ástráður Eysteinsson 1984:25.)
Fyrr á öldum, þegar frumtextinn sem verið var að þýða var álitinn heilagur
eða því sem næst, var það engin spurning að reynt skyldi að fylgja frumtextanum
út í ystu æsar. Þetta átti við um biblíuþýðingar og þýðingar úr klassísku mál-
unum yfir á þjóðtungurnar og er ekki óeðlilegt þegar hugsað er til þess að lærðir
menn álitu þjóðtungurnar óæðri klassísku málunum. Þegar þessari stefnu var
fylgt urðu til þýðingar sem þröngvuðu viðtökumáhnu í málfræðibúning frum-
textans; málfræðileg fyrirbæri voru búin til til að ná jafngildi milli frum- og
viðtökutexta. Ur þessu varð svo oftar en ekki afskaplega vond þýðing.8
Það markmið að koma bæði formi og inntaki til skila er kallað formlegt jafn-
gildi (sjá Ástráð Eysteinsson 1984:25). Á síðari öldum, einkum síðari áratugum,
hafa menn aðhyllst í æ ríkari mæli það sem kallað er áhrifajafngildi; að reynt sé
að koma boðskap frumtextans til skila þannig að hann falh sem best að málsam-
félagi og menningu lesandans, jafnvel svo vel að lesandinn geti ekki greint að um
þýðingu úr erlendu máli sé að ræða, heldur frumsamið verk.
Þessi umræða hefur fyrst og fremst beinst að bókmenntaverkum vegna þess
að þar eru spurningarnar um trúnað við frumtexta og þar með stíl höfundar og
aðlögun að málinu sem þýtt er á alvarlegri og áleitnari en í nytjatextum. Virðist
meðalvegurinn þar farsælastur og þýðendum hollt að halda sig við hið formlega
jafngildi eins lengi og kostur er.9 Þegar eingöngu er hirt um að koma boðunum
til skila, án þess að huga að formlegu jafngildi, hlýtur sú hætta alltaf að koma
upp að þýðandinn rangtúlki textann, í versta falli semji nýtt verk.
Þýðendur nytjatexta þurfa yfirleitt ekki að hafa miklar áhyggjur af formlegu
jafngildi. Þar gildir sú krafa að boðin komist til skila. Ef þeim sem les leiðbein-
ingar á íslensku tekst jafn vel til við verk sitt og enskum lesanda, og ef hann
er sáttur við málfar og frágang textans, þá er tilganginum náð. Það skiptir t.d.
htlu máli hvort leiðbeiningar í mörgum liðum eru settar fram í 2. pers. flt. eða
notað er nafnháttarsamband:
'Þannig er leitað að einum staf:'
1. 'Styðjið á F4 (Leita/staf).'
2. 'Ritið stafinn sem leita á að.'
7Þetta orð er tekið eftir Ástráði Bysteinssyni (1984) sem þýðing á enska hugtakinu
equivalance.
8Bassnett-McGuire (1980:39-75) gefur gott yfirlit yfir þróun hugmynda um þýðingar og
þýðingafræði. Sjá einnig Pedersen (1987).
9Það viðhorf aðhyllist Astráður Eysteinsson (1984 og 1986) og styður það góðum rökum.